Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar
76 HÚÐIN OG STOÐ- OG HREYFIKERFIÐ Hlauparar þurfa rétta tegund vöðvaþráða Í vöðvum eru nokkrar mismunandi tegundir vöðvaþráða (vöðvafrumna). Sumar þeirra geta dregist mjög hratt saman en aðrar dragast hægt saman. Hægu vöðvaþræðirnir eru þolnari og geta starfað lengur en þeir hröðu. Sumir hafa marga hraða vöðvaþræði og minna af hægum. Aðrir hafa marga hæga vöðvaþræði og minna af hröðum. Þetta ræðst af erfðum og því hvernig fólk notar vöðvana og hvort það stundar líkamsrækt. Spretthlaupari þarf að hafa marga hraða vöðvaþræði, en langhlaupari þarf marga hæga og þolna vöðvaþræði. Súrefnisskortur í vöðvum og mjólkursýra Því meira, sem vöðvarnir eru látnir vinna, þeim mun meira súrefni þurfa þeir. Ef við reynum of mikið á vöðvana berst þeim ekki nægilegt súrefni með blóðinu. Vöðvarnir verða þá fyrir súrefnisskorti og í þeim myndast mjólkursýra . Þá súrna vöðvafrumurnar og við verðum þreytt og fáum verk í vöðvann. Þú getur sannreynt þetta með því að hlaupa þar til fæturnir neita að bera þig lengur. Ef þú hvílir þig fá vöðvarnir nægilegt súrefni á ný og mjólkursýran hverfur úr þeim. Ef við reynum mikið á vöðvana og lengi getum við fengið harðsperr- ur (strengi), einkum ef við erum ekki í æfingu. Harðsperrurnar koma ekki fram fyrr en allmörgum klukkustundum eftir áreynsluna og við finnum fyrir þeim í nokkra daga. Þær stafa af því að við höfum reynt of mikið á vöðvana þannig að vöðvafrumurnar skemmast tímabundið. Sársaukinn stafar af efnum sem losna í sködduðu vöðvafrumunum og erta sársaukataugar í vöðvunum. Við getum dregið úr líkum á harðsperrum með því að hita upp fyrir æfingar og teygja vel á þeim vöðvum sem við reyndum mest á. 1 Nefndu þrenns konar vöðva í líkamanum. 2 Hvaða vöðvum getum við stjórnað með viljanum og hverjum ekki? 3 Hvers vegna myndast mjólkursýra í vöðvunum þegar við æfummikið? 4 Lýstu því hvernig tvíhöfði og þríhöfði vinna saman. 5 Lýstu því hvernig við getum aukið þolið með þjálfun. 6 Hvernig getum við minnkað líkur á því að fá harðsperrur? 7 Gerðu grein fyrir hægum og hröðum vöðvaþráðum. 8 Teiknaðu mynd af vöðva og lýstu því sem gerist þegar hann starfar. Notaðu eftirfarandi hugtök í lýsingunni: taugafruma, vöðvaknippi, vöðvafrumur, æð, bruni, súrefni, glúkósi, hvatberar og mjólkursýra. ÍTAREFNI SJÁLFSPRÓF ÚR 4.3 Ef við hitum vel upp í byrjun æfingar eru minni líkur á að við fáum harðsperrur.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=