Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

70 HÚÐIN OG STOÐ- OG HREYFIKERFIÐ Kúluliður Hjöruliður Hverfiliður Liðþófi Liðband Hnéskel Krossband Meiðsli eru algeng í mörgum íþróttum. Hér hefur fótbolta- maður brotnað illa á fæti. Liðamótin eru lykillinn að hreyfanleikanum Milli margra beina í líkamanum eru liðamót (liðir) sem gera beinunum kleift að hreyfast hvert gegn öðru. Endar beinanna, sem koma saman í liðnum, eru klæddir verndandi brjóski. Í liðunum er vökvi sem smyr núningsfletina og dregur úr viðnáminu þegar beinin hreyfast hvert gegn öðru. Liðirnir eru mismunandi að gerð. Í kúlulið geta beinin hreyfst í allar áttir. Mjaðmarliðurinn er til dæmis þannig liður. Hjöruliður er til dæmis í fingrum og tám og þá hreyfast beinin bara í einum fleti. Í hverfilið geta beinin snúist hvort gegn öðru og þess vegna getum við til dæmis snúið höfðinu til beggja hliða. Í olnbogunum eru bæði kúluliðir og hverfiliðir. Á liðamótunum eru sterk bönd sem halda beinendunum saman og í réttum skorðum. Þessi bönd kallast liðbönd. Þegar við snúum okkur á fæti og tognum gefa liðböndin of mikið eftir og geta jafnvel slitnað. Tognun veldur oft bólgu í liðum. Stundum reynast liðböndin sterkari en beinin og þá brotnar beinið en liðbandið heldur. Beinbrot Brestur í beini grær yfirleitt saman af sjálfu sér. En ef bein brotnar þannig að endarnir standast ekki rétt á verður að koma beininu í rétt­ ar skorður. Oftast nægir að setja gifs um beinið, en stundum verður að negla eða skrúfa brotin saman. Bein í fullorðnu fólki eru stökkari (brothættari) en í ungu fólki og þess vegna er fullorðnu fólki hættara við beinbrotum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=