Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

50 BLÓÐRÁSIN Frumur ónæmiskerfisins eru minnugar Þegar við höfum orðið fyrir sýkingu erum við oft varin fyrir sömu sýk­ ingu í nokkurn tíma á eftir. Við erum þá orðin ónæm . Þetta byggist á því að T- og B-frumurnar muna eftir þeim sýkingum sem við höfum fengið. Ef við komumst aftur í snertingu við eitthvert af þeim smi­ tefnum, sem við höfum áður sýkst af, mynda varnarfrumurnar mikið magn mótefna þegar í stað vegna þess að þær geyma í sér upplýsingar um efnið og smitefnið er gert óvirkt áður en það nær að sýkja okkur. Skýringin á því hversu oft við fáum kvef er sú að kvefveirurnar eru svo margar og mismunandi að gerð. Ónæmi fyrir einni gerð af kvef­ veiru ver okkur ekki fyrir annarri. Bólusetning og tilbúin mótefni Þegar við erum bólusett nýtum við minni ónæmiskerfisins. Í spraut­ unni eru bara hlutar smitefnisins (sýkilsins) og þeir geta ekki kallað fram sjúkdóminn því að smitefnið hefur verið gert óvirkt. Smitefnið er hins vegar virkt á þann hátt að það setur í gang myndun mótefna í ónæmiskerfinu sem býr sig undir árás eins og um eðlilegt smitefni sé að ræða. Ef líkaminn kemst aftur í snertingu við þetta smitefni eru upp­ lýsingar um það í minninu og mótefni myndast gegn því hratt og vel og þau vinna bug á smitefninu áður en við sýkjumst. Bólusetning getur gefið okkur ævilangt ónæmi. Í mörgum löndum geta ferðamenn fengið sprautu með mótefnum áður en þeir fara til útlanda og þessi mótefni vernda þá gegn mörgum smitsjúkdómum. Mótefnin hverfa hins vegar úr líkamanum á nokkrum vikum og slík sprauta verndar fólk því mun skemur en bólusetning. Þessi þjónusta er ekki lengur í boði hér á landi, aðeins bólusetning. Alnæmisveiran eyðileggur T-frumur Í ónæmiskerfinu starfa mismunandi tegundir T-frumna. Sumar þeirra kallast drápsfrumur því að þær geta drepið krabbameinsfrumur og frumur sem eru sýktar af veirum. Aðrar kallast hjálparfrumur og gefa fyrirskipanir til annarra varnarfrumna og samhæfa þannig varnarviðbrögðin. Skýringin á því hve alnæmi er alvarlegur sjúkdómur er sú að alnæmisveiran eyðileggur hjálparfrumurnar. Við það verður ónæmiskerfið nánast óstarfhæft. Alnæmissjúklingar verða þess vegna sérstaklega viðkvæmir fyrir alls kyns sýkingum. Á myndinni sést T-fruma (rauð á myndinni) sem hefur orðið fyrir árás alnæmisveira (litaðar bláar á myndinni). Hér á landi eru öll börn bólusett, meðal annars gegn stífkrampa, barnaveiki, kíghósta, mænusótt, mislingum, rauðum hundum og hettusótt. ÍTAREFNI

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=