Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

142 tóbak drepur Tóbak drepur 7.2 Eitt dauðsfall á dag Hugsaðu þér að rútufyrirtæki hefði svo illa búnar og hættulegar rútur í ferðum sínum að ein rúta færi að jafnaði fram af hengiflugi hér á landi í hverjum mánuði og þrjátíu farþegar létust hverju sinni. Ár eftir ár! Því yrði aldeilis slegið upp í blöðum og sjónvarpi. Allt yrði gert til þess að finna orsökina og stöðva þessar hættulegu rútuferðir. Í reynd er það svo að til er vímuefni sem drepur jafn margt fólk á hverju ári hér á landi og nefnt var í dæminu hér að ofan. Þó vekur það ekki neina sérstaka athygli og það skaðar þó enn fleiri en þá sem deyja. Þetta vímuefni er tóbak ! Þúsundir skaðlegra efna Í tóbaki, tóbaksreyk eða munn- og neftóbaki er ekki eitt einasta efni sem líkaminn þarf á að halda. Mörg af þeim rúmlega 4000 efnum, sem eru í tóbaksreyk, eru þvert á móti beinlínis hættuleg fyrir líkamann. Tvö þeirra eru bönnuð efni á vinnustöðum og yfir fjörutíu þeirra eru þekkt krabbameinsvaldandi efni. Nikótín er eitt þessara eitruðu efna. Nikótínið skapar vímuna sem reykingamaður sækist eftir. Það er eitt af eitruðustu efnum náttúr­ unnar. Nikótínið í fimm sígarettum er nægilegt til þess að drepa mann. Ástæða þess að sá maður, sem reykir fimm sígarettur, deyr ekki þegar í stað er sú að nikótínið úr þeim berst ekki allt út í blóðið. Eitrið þynnist í loftinu og talsvert af því hverfur úr líkamanum með reyknum sem fer út við útöndun. Nikótín skapar fljótt fíkn Nikótínið nær til heilans strax tuttugu sekúndum eftir að það er komið í blóðið. Í stutta stund kallar það fram tilfinningu um sérstaka árvekni. Reykingamanninum finnst hann vera bæði skarpur og yfirvegaður. Það er honum meira en nóg örvun til þess að halda áfram. Nikótínið kallar mjög fljótt fram afar sterka fíkn, sterkari en flest önnur efni. Líkaminn heimtar fljótt næsta skammt og sá sem reynir að hætta fær fráhvarfseinkenni . Þau lýsa sér meðal annars með óróa, geðvonsku og sterkri löngun í tóbak. Reykingamaðurinn freistar þess að halda fráhvarfseinkennunum niðri með því að reykja mikið og oft.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=