Mannslíkaminn - Litróf náttúrunnar

8 MANNSLÍKAMINN Fjölfruma lífverur Sumar frumur geta lifað algerlega á eigin spýtur. Bakteríur og frumverur eru dæmi um slíkar einfruma lífverur . Hver fruma tekur þá upp öll efni sem hún þarf og skilar frá sér öllum úrgangsefnum. Stærri lífverur eru hins vegar alltaf úr mörgum frumum. Það hefur marga kosti í för með sér, en kallar líka á ný úrræði og nýjar lausnir. Hjá fjölfruma lífverum þarf til dæmis að vera flutningskerfi svo að tryggt sé að allar frumur fái þá næringu og það súrefni sem þær þarfnast og að þær losni við úrgangsefni. Frumurnar hafa sér­ hæfst til þess að gegna sérstökum verkefnum og þurfa því boðkerfi til þess að geta unnið saman. Fjölfrumungar eru því miklu flóknari lífverur en einfrumungarnir. Maðurinn er ein þessara flóknu lífvera. Nokkur hundruð mismunandi sérhæfðar frumur Þú hefur orðið til úr einni frumu og í líkama þínum eru nú tugir þúsunda milljarða frumna. Líf þitt hófst þegar sáðfruma og eggfruma runnu saman. Frjóvgaða eggfruman, okfruman , tók svo að skipta sér og varð að sífellt fleiri frumum. Fyrstu frumurnar voru allar nákvæmlega eins. Eftir að nokkrar frumuskiptingar höfðu átt sér stað komu fram sífellt sérhæfðari frumur sem fengu mismunandi hlutverk. Þegar þú varst í legi móður þinnar, mynduðust allar gerðir frumna í líkama þínum og þegar þú fæddist varst þú fullmótuð, lítil mannvera. Í líkama þínum eru nokkur hundruð mismunandi gerðir af frumum. Af mismunandi gerðum frumna má nefna vöðvafrumur, taugafrumur, fitufrumur, blóðfrumur, beinfrumur og hjartafrumur. Hver þessara frumugerða gegnir sérstöku hlutverki í líkamanum. Í líkama okkar eru margar gerðir af frumum. Í líkama súmóglímukappa eru ekki fleiri vöðvafrumur en í venjulegum manni. Þær eru bara stærri. Fitufrumur hans geta hins vegar verið fleiri. Taugar, blóð, vöðvar og fita eru úr sérhæfðum frumum. Taugafruma Blóðfruma Vöðvafruma Fitufruma

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=