Maður og náttúra

63 UMHVERFI OKKAR Bruni jarðefnaeldsneytis eykur styrk koltvíoxíðs Síðustu tvær aldirnar hefur styrkur koltvíoxíðs í lofthjúpnum aukist. Þetta stafar fyrst og fremst af því að við brennum gríðarlegu magni af jarðefnaeldsneyti, fyrst og fremst kolum, olíu og gasi. Við brunann losnar út í andrúmsloftið það koltvíoxíð sem plöntur og aðrar lífverur bundu með ljóstillífun á tugum milljóna ára. Það bætir ekki úr skák að við höggvum nú miklu meira af skógi en vex upp í staðinn. Þess vegna verða færri tré til þess að binda koltvíoxíð með ljóstillífun og styrkur koltvíoxíðs eykst því enn frekar. Breytingar á veðurfari Eftir því sem styrkur koltvíoxíðs eykst í lofthjúpnum þeim mun meiri verða gróðurhúsaáhrifin . Þetta veldur því að jörðin hlýnar og það hefur áhrif á veðurfarið. Síðasti áratugur tuttugustu aldar var heitasti ára- tugurinn í margar aldir. Vísindamenn telja að meðalhiti á jörðinni geti hækkað um eina til fimm gráður fram til ársins 2100. Ef veðurfar á jörðu hlýnar rís sjávarborðið. Sumpart er það vegna þess að jöklar og ísbreiður heimskautanna bráðna og að hluta vegna þess að vatn sjávarins þenst út þegar það hitnar. Talsverður hluti jarðarbúa býr við strendurnar og því getur farið svo að milljónir manna neyðist til þess að flytja sig um set. Vísindamenn hafa nýlega uppgötvað að aukinn styrkur koltvíoxíðs í andrúmslofti veldur því að efstu lög sjávar súrna. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki hafsins. Aukin gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar geta líka valdið því að meiri öfgar verði í veðráttunni. Þurrustu svæði jarðar geta orðið enn þurrari og úrkoma getur aukist þar sem hún er mikil fyrir. Það eykur líkur á enn frekari hungurs- neyð í Afríku og víðar og flóð og tilheyrandi hörmungar geta orðið enn tíðari í Asíu. Ekki fer á milli mála að veðráttan á Íslandi hefur verið mjög mild síðustu árin og það kemur meðal annars fram í því að flestir jöklar hafa hopað hratt síðustu áratugi. Þá sýna rann- sóknir að birki vex nú ofar í hlíðum en fyrr (skógarmörkin hækka), skilyrði hafa batnað fyrir margvíslegar plöntutegundir og kornrækt gengur betur en fyrr. Fárviðri geta orðið tíðari ef hlýnar í veðri. Hér er fólk á flótta undan hamförum hitabeltisstorms.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=