Maður og náttúra

57 UMHVERFI OKKAR Auknir flutningar og lengri flutningar Við þurfum að flytja allar vörur og því meira sem við viljum fá af vörum þeim mun meiri verða flutningarnir. Við erum nú orðin vön því að alls kyns grænmeti og ávextir séu á boðstól- um árið um kring. Eplin geta til dæmis verið frá Argentínu eða Nýja-Sjálandi. Vörur á borð við kaffi, te, kíví og mangó eru líka fluttar um óravegu. En það eru ekki aðeins vörurnar sem fara sífellt lengri leiðir. Við sjálf ferðumst sem aldrei fyrr. Í Svíþjóð hefur það verið rannsakað og reiknað að í upphafi tuttugustu aldar hafi hver Svíi ferðast að meðaltali 400 metra á dag en nú fer hann um 40 kílómetra að meðaltali á dag. Hreinni bruni og hagkvæmari flutningur Öllum flutningum fylgir einhver mengun. Útblástur frá farartækjum, sem ganga fyrir olíu, bensíni eða steinolíu, skapar margs konar umhverfisvandamál. Það er því mikilvægt skref í baráttunni gegn um- hverfisvandanum að smíða vélar þar sem bruninn er hreinni og flytja vörur á hagkvæmari hátt en nú er gert. Rafknúnar járnbrautarlestir, sporvagnar og neðanjarðarlestir eru bæði vistvænni og hagkvæmari en þær hefðbundnu. Á Íslandi er hægt að gera margt til þess að gera flutninga vistvænni og hagkvæmari en þeir eru nú. Fólk ætti frekar að kaupa sparneytna bíla, nota almenn- ingssamgöngur eða samnýta bíla meira en nú er gert. Umferð bíla og flugvéla eykst mjög hratt í öllum heiminum. Það eykur losun mengandi efna út í andrúmsloftið og veldur umferðaröngþveiti, bæði á vegum og í lofti. Bara venjulegur sófi Ósköp venjulegur sófi er gott dæmi um það hvernig hversdagslegur hlutur getur skapað margvíslegan umhverfisvanda. Í sófum er oft svampur úr gerviefnum, grind úr tré, spónaplötur, pappi og krossviður. Í áklæðinu er bómull og ýmiss konar plastefni. Í honum geta verið gormar og fjaðrir úr málmi og lím, málning og lökk og ýmis önnur sérvirk efni. Við framleiðslu allra þessara hluta og efna hefur þurft orku og við framleiðsluna hafa mengandi efni losnað út í andrúmsloftið. Íhlutir í sófann hafa svo verið fluttir frá ýmsum heimshornum til húsgagnaverksmiðjunnar. Þeim flutningum fylgir losun koltvíoxíðs og annarra mengandi efna. Loks þarf að flytja sófann frá verksmiðjunni til húsgagnaverslunarinnar og síðan til kaupandans. Að lokum hafnar hann í sorpinu. Sum plastefni og sumir málmar í sófanum brotna aldrei niður í náttúrunni. Einn stakur sófi veldur engu umhverfisslysi en hundruð þúsunda sófa skilja eftir sig ummerki í umhverfinu. Allir heimsins sófar eru þó aðeins lítið brot af þeim umhverfisvanda sem við er að glíma á okkar dögum. ÍTAREFNI

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=