Maður og náttúra

19 LJÓSTILLÍFUN OG BRUNI Orkan nýtist illa í fæðukeðjum Á sléttumAfríku lifa gríðarlega stórar hjarðir af gnýjum og sebradýrum, en það eru tiltölulega fá ljón sem veiða sér til matar úr þessum hjörðum. Hvers vegna eru ljónin ekki fleiri þegar svo mikið er af fæðu? Helsta ástæðan er í rauninni skortur á orku. Plöntur binda lítinn hluta sólarorkunnar í glúkósa. Þegar dýrin éta breytast um það bil 85% af orkunni í hreyfi- og varmaorku í hverjum hlekk í fæðukeðjunni. Aðeins um 15% orkunnar bindast í dýrinu á formi kolvetna, fituefna og prótína sem næsti neytandi getur étið. Af þessari ástæðu verður því ekki svo mikil orka eftir, til dæmis fyrir rándýr sem er þriðja stigs neytandi. Vegna þessa verða rándýrin aldrei sérstaklega mörg. Þau hafa bara aðgang að takmarkaðri orku, eða með öðrum orðum: orkan nægir einfaldlega ekki fyrir fleiri rándýr. Á sléttum Afríku lifa þúsundir gnýja en örfá ljón. Rándýr eru tiltölulega fá því að fæðan verður minni eftir því sem aftar kemur í fæðukeðjunni. Orkunýtnar grænmetisætur Í mörgum löndum draga fátækir fiskimenn mikið magn af fiski úr sjó, en fiskurinn fer ekki alltaf til manneldis. Þess í stað fer hann í verksmiðjur sem framleiða fiskimjöl. Það er svo selt til ríkra landa þar sem það er meðal annars notað sem fóður handa kjúklingum. Eitt tonn af fiski nægir í um það bil 5000 matarskammta. Ef eitt tonn af fiski er hins vegar notað sem kjúklingafóður nægir fiskimjölið ekki nema til þess að framleiða 750 matarskammta af kjúklingi. Nýtingin er aðeins um 15% sem þýðir að 85% fara forgörðum. Þessi fæða nýtist miklu betur ef við borðum fiskinn beint. Fæðan nýtist enn betur ef við borðum fæðu úr plönturíkinu. Þeir sem borða bara kjöt þurfa um það bil sexfalt meira ræktarland en þeir sem eru grænmetisætur. Við ættum því að borða mikið af grænmeti, brauði, pasta og hrísgrjónum því að þannig getum við brauðfætt fleiri. ÍTAREFNI

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=