Maður og náttúra

DJUR 17 Hringnum lokað á einu ári Byggplantan notar mikinn hluta glúkósans, sem hún framleiddi við ljóstillífunina, til að búa til mjölva í bygginu (fræinu). Bóndinn sker síðan byggið og kemur því fyrir í kornhlöðu sinni. Þar lifir kannski mús sem étur byggið og líkami hennar tekur þá til sín kolefnisfrumeindir sem voru áður í koltvíoxíði andrúmsloftsins. Þegar músin brennir fæðunni og andar geta kolefnisfrumeindirnar aftur borist út í andrúmsloftið í formi koltvíoxíðs. Þá getur verið liðið ár frá því að kolefnið var bundið í byggplöntunni. Hringnum lokað á einni öld Stundum gengur hringrásin hægar. Kolefnisfrumeindir í andrúmsloftinu geta til dæmis bundist í litla greniplöntu. Plantan vex og verður að stóru tré sem er fellt þegar það er fullvaxið. Kannski er það sagað niður í eldivið og brennt í arni. Þá berast kolefnisfrumeindirnar aftur út í andrúmsloftið. Slík hringrás getur tekið hundrað ár, heila öld. Jarðefnaeldsneyti – einna lengsta hringrásin Fyrir um þrjú hundruð milljónum ára uxu gríðarmiklir skógar á mörgum svæðum á jörðinni. Á þessum tíma var mjög heitt og rakt og dauðir plöntuhlutar féllu og söfnuðust fyrir í vatnsósa og súrefnissnauðu umhverfi. Súrefnisskorturinn olli því að leifarnar rotnuðu ekki en smám saman bættist sífellt meira ofan á þær og þær þjöppuðust saman og urðu að kolum undir farginu. Jarðolía er talin vera leifar smásærra lífvera sem lifðu í höfum og stórum stöðuvötnum og féllu til botns þegar þær drápust og grófust í súrefnissnauðu seti. Bæði kol og olía myndast þegar þessi efni eru komin á mikið dýpi í jarðlögum og þrýstingurinn og hitinn er orðinn talsverður. Nú er olíu dælt upp úr jarðlögunum og unnið meðal annars úr henni bensín. Þegar við ferðumst í bíl brennum við bensíni og sleppum út í andrúmsloftið kolefnisfrumeindum sem hafa verið bundnar í olíunni um milljónir ára. Kolefnisfrumeindirnar eru hér í einna lengstu hringrás sem við þekkjum. Þær fara fram og til baka á allt að þrjú hundruð og fimmtíu milljónum ára.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=