Maður og náttúra

144 Orðskýringar arfblendin lífvera : lífvera sem hefur mismunandi gen í genasamsætu, til dæmis eitt ríkjandi gen og annað víkjandi. arfhrein lífvera : lífvera sem hefur sams konar gen í genasamsætu, t.d. tvö ríkjandi eða tvö víkjandi gen. bruni : ferli sem á sér stað í frumum lífvera og aflar þeim orku til ýmiss konar starfsemi. Bruni fer fram í hvatberum frumna í plöntum og dýrum, í ferlinu er glúkósa sundrað í koltvíoxíð og vatn og orkan er notuð til vaxtar og viðhalds, svo og til hreyfingar. Frumuöndun er annað heiti á þeim bruna sem fer fram í frumum. DNA-greining : greining sem gerð er á erfðaefni úr mönnum eða öðrum lífverum. Vegna þess að engar tvær lífverur hafa nákvæmlega eins DNA- sameindir er unnt að greina sýni með erfðaefni, til dæmis sýni af blóði, munnvatni eða húðfrumum, og sanna eða afsanna að það tilheyri til dæmis tilteknum manni. Þessi aðferð er meðal annars mikið notuð við sakamálarannsóknir og til að skera úr um faðerni. DNA-sameind : afar löng, lífræn sameind sem er í frumum og ber í sér erfðaupplýsingar þeirra. DNA-sameindin heitir öðru nafni deoxíríbósakjarnsýra (skammstafað á íslensku DKS). Erfðaupplýsingarnar skiptast í einingar sem kallast gen (eða erfðavísar). Hvert gen ræður einum tilteknum eiginleika lífveru. einrækt : ræktun þar sem aðeins ein tegund nytjaplöntu er ræktuð á stórri landspildu. Ræktun byggs og kartaflna á akri er dæmi um einrækt. einræktun : sjá klónun. endurnýjanlegur orkugjafi : orkugjafi sem endurnýjast stöðugt þannig að hann gengur aldrei til þurrðar. Sólarorka, orka í vatnsföllum og orka vindsins eru dæmi um endurnýjanlega orkugjafa. Þessir orkugjafar hafa enn fremur þann kost að þeir valda yfirleitt mun minni mengun og hafa minni áhrif á umhverfið en þeir orkugjafar sem ganga til þurrðar, t.d. jarðolía og kol. erfðabreytt lífvera : lífvera sem er með viðbótargen, eitt eða fleiri, í erfðaefni sínu. Erfðatækni gerir mönnum kleift að klippa gen með tiltekinn eiginleika út úr erfðaefni einhverrar lífveru og bæta því við erfðaefni annarrar lífveru. Genum er meðal annars bætt við í frumur nytjaplantna í því skyni að auka þol þeirra gegn sníkjudýrum, sveppum eða öðrum plágum, en líka til þess að auka næringargildi plantna, til dæmis hrísgrjóna. erfðaefni : efni í frumum lífvera sem geymir allar erfðaupplýsingar þeirra og miðlar þeim til afkomenda. Erfðaefni í frumum mannsins, og langflestum lífverum, er DNA-sameind, en einföldustu lífsformin (til dæmis veirur) hafa eingöngu RNA- sameind. erfðafræði : fræðigrein sem fjallar um erfðir lífvera. Erfðafræðin skýrir hvernig eiginleikar erfast frá kynslóð til kynslóðar og einnig hvers vegna engir tveir einstaklingar eru nákvæmlega eins. erfðamengi : allar upplýsingar sem erfðaefni lífveru geymir. Gerð hafa verið kort yfir allt erfðamengi nokkurra lífvera, til dæmis erfðamengi mannsins. fjöldaaldauði : atburður í sögu jarðar þar sem mikill fjöldi lífverutegunda deyr út vegna mikilla hamfara, til dæmis við óskaplegt eldgos eða við árekstur stórs loftsteins á jörðina. frumframleiðandi : lífvera sem ljóstillífar og er fær um að búa til lífræn efni úr ólífrænum með hjálp orku frá sólarljósi. frumulíffæri : eining í frumum sem gegnir sérstöku hlutverki í starfsemi hennar. Hvatberar og grænukorn eru dæmi um frumulíffæri. Hvatberar annast frumuöndunina og ljóstillífunin fer fram í grænukornunum. frumuöndun : sjá bruni. fæðukeðja : ferli sem sýnir hvernig efni og orka flæða frá einni lífveru til annarrar í vistkerfi. Fæðukeðja er til dæmis: gras, sauðkind, maður. fæðupíramíði : ferli sem sýnir orkuflæði í vistkerfi. Orkan er mest hjá frumframleiðendum en er umtalsvert minni hjá plöntuætum og enn minni hjá rándýrum. Frumframleiðendur, plöntuætur og rándýr mynda mismunandi hjalla í fæðupíramíðum. fæðuvefur : net gert úr mörgum fæðukeðjum sem sýnir flæði efnis og orku milli lífvera í vistkerfi. gen : sá hluti DNA-sameindar sem geymir upplýsingar sem ákvarða einn tiltekinn eiginleika. Í litningum manna eru um 25 000 mismunandi gen. genasamsæta : par af genum sem ákvarða sama eiginleika og koma hvort frá sínu foreldri. Genin í hverri genasamsætu eru stundum eins, þá er lífveran arfhrein um þann eiginleika, en stundum eru genin mismunandi í sömu samsætunni og þá er lífveran sögð arfblendin. gróðurhúsaáhrif : áhrif sem koma fram vegna efna í lofthjúpi jarðar sem halda jörðinni heitri, það er að segja efnin valda því að jörðin missir minni varma út í geiminn en ella væri. Helstu efni sem valda gróðurhúsaáhrifum eru koltvíoxíð, vatnsgufa og metan. Styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hefur aukist síðustu áratugi vegna þess hve miklu menn hafa brennt af jarðefnaeldsneyti og það hefur leitt til aukinna gróðurhúsaáhrifa og hlýnunar jarðar. gróðurlendi : afmarkað landsvæði þar sem gróður er alls staðar svipaður. Birkiskógur er dæmi um sérstakt gróðurlendi og einkennist af birki og lágvaxnari plöntum, svo sem lyng- og víðitegundum, sem mynda undirgróðurinn, það er gróðurinn á skógarbotninum. grænukorn : frumulíffæri í frumum plantna þar sem ljóstillífun fer fram. Í grænukornum er blaðgræna sem beislar orku sólarljóssins sem er nauðsynleg til að tengja saman ólífrænu efnin koltvíoxíð og vatn í lífrænt efni, sykru. hitaskiptalag : skil milli heits yfirborðslags og kaldara lags þar undir í stöðuvötnum. Þessi skil, hitaskiptalagið, valda því að blöndun verður lítil milli þessara tveggja

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=