Maður og náttúra

ÞRÓUN LÍFSINS Kolatímabilið Fyrir um það bil 300 milljónum ára uxu á jörðinni skógar með risavöxnum trjám sem voru ættingjar burknanna sem við þekkjum nú. Plönturnar héldu áfram að laga sig að lífi á þurrlendinu. Meðal annars komu fram plöntur sem fjölguðu sér með fræi . Fræ plantnanna þoldi þurrk vel og plönturnar komust betur af og dreifðust um þurrlendið. Þetta tímabil í sögu jarðar kallast kolatímabilið því að á þessum tíma mynduðust mikil kolalög í jörðu. Kolin urðu til úr dauðum trjám sem féllu í gríðarlega miklum skógum sem uxu á þessum tíma á votlendum svæðum. Á kolatímabilinu komu skriðdýr fram á sjónarsviðið. Það greindi þau helst frá froskdýrunum að þau þurftu ekki að fara í vatn til þess að fjölga sér. Þau verptu eggjum með skurn sem kom í veg fyrir að eggin þornuðu upp á þurru landi. Frjóvgunin fór auk þess fram innan líkamans en ekki utan hans eins og hjá froskdýrum. Þess vegna gátu skriðdýrin breiðst út og lagt undir sig þurr landsvæði. Á kolatímanum þöktu æðplöntur þurrlendið. Innan um byrkningatrén flögruðu skordýr, meðal annars risavaxnar drekaflugur. Flekar á hreyfingu Meginlönd jarðar eru sýnilegi hlutinn af tugum stórra fleka sem eru á yfirborði hennar, það er að segja sá hluti þeirra sem stendur upp úr hafinu. Flekarnir eru á stöðugri hreyfingu og meginlöndin fylgja með. Lögun og lega meginlandanna hefur því breyst í sögu jarðar og það hefur haft mikið að segja fyrir þróun lífvera. Fyrir um 250 milljónum ára var allt þurrlendi jarðar saman komið í einu risavöxnu meginlandi sem kallast Alland (Pangaea). Þetta stóra meginland varð til við samruna tveggja stórra meginlanda, Gondvanalands og Lárasíu. Við sameininguna í Alland komu saman ýmsar tegundir lífvera sem áður höfðu verið aðskildar og milli þeirra varð hörð samkeppni. Við samrunann minnkuðu strandsvæðin og grunnsævið og margar lífverur hafanna dóu út. Á landi urðu til stór svæði með þurru og heitu meginlandsloftslagi og við það hurfu líka margar tegundir lífvera. Önnur breyting, sem hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífverur, varð fyrir um 180 milljónum ára þegar meginlöndin tóku að skiljast sundur á ný. Þá urðu til stórar„eyjar“ þar sem lífverur einangruðust og við það mynduðust margar nýjar tegundir. Hreyfing meginlandanna skýrir margar ráðgátur um þróun lífvera sem lengi voru óleystar, til dæmis þá gátu hvers vegna pokadýr og strútfuglar lifa bæði í Suður- Ameríku og Ástralíu, þótt þessi meginlönd séu nú fjarri hvort öðru. 132 LÍF Í ÞRÓUN Alland Lárasía Norður- Ameríka Evrasía Afríka Indland Ástralía Milljónir ára fyrir nútíma Suður- Ameríka Gondvanaland Suðurskautsland 300 250 200 150 100 65

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=