Maður og náttúra
127 ÞRÓUN LÍFSINS Tilurð jarðar – höf og lofthjúpur myndast Sú sólstjarna, sem er næst okkur, sólin , myndaðist fyrir um það bil 4,6 milljörðum ára. Jörðin og aðrar reikistjörnur sólkerfis okkar eru ámóta gamlar og mynduðust úr gasskýjum og ögnum sem svifu umhverfis þessa ungu sólstjörnu. Geislun frá geislavirkum efnum og sífelldir árekstrar mikilla berg- hnullunga úr geimnum ollu því að jörðin hitnaði og varð að bráðnum efnismassa. Fyrir rúmlega fjórum milljörðum ára fækkaði árekstrunum og smám saman kólnaði yfirborðið og tók að storkna. Mikil og stöðug eldgos ollu því að vatnsgufa og ýmsar aðrar lofttegundir söfnuðust fyrir og mynduðu lofthjúp og þrumuveður geisuðu. Síðan tók að kólna og vatnsgufan þéttist og varð að regni. Þá urðu fyrstu höfin til. Auk vatnsgufu voru í frumlofthjúpi jarðar aðrar lofttegundir, til dæmis koltvíoxíð, nitur, brennisteinsvetni, metan og ammoníak. Þessar loft- tegundir voru forsenda þess að líf gæti orðið til. Tilraunir hafa sýnt fram á að eldingar geta umbreytt efnum frumlofthjúpsins þannig að myndist til dæmis amínósýrur og niturbasar – byggingareiningar lífvera. Úr þeim myndast svo prótín og DNA-sameindir. Þegar jörðin var ung var allt yfirborð hennar glóandi haf úr hraunkviku. Þegar stöðugu regni loftsteina linnti loks tók yfirborðið að kólna og þá storknaði kvikan og varð að bergi. Tilraun Millers Árið 1953 birti bandaríski efnafræðingurinn Stanley Miller niðurstöður úr tilraun sinni þar sem hann bjó til eftirlíkingu af frumlofthjúpi jarðar, eins og menn töldu þá að hann hefði verið samsettur. Í tilrauninni notaði hann vatnsgufu, vetni, ammoníak og metan og lét rafmagnsneista (til að líkja eftir eldingum) fara gegnum blönduna. Hann hefur sjálfur lýst því sem hann sá þegar vatnsgufan varð aftur að vökva.„Í fyrsta sinn sem ég gerði tilraunina varð blandan rauð. Það var mjög áhrifamikið. Og eftir að rauði liturinn kom fram gulnaði hún og varð loks brún eftir því sem neistaflugið hélt áfram.“ Tilraunin stóð í nokkrar vikur og niðurstöðurnar voru furðulegar því að til höfðu orðið meðal annars amínósýrur, byggingareiningarnar í prótínum. Með svipuðum aðferðum hefur tekist að búa til fitusýrur, sykursameindir og niturbasa, sem eru byggingareiningar í DNA-sameindum. ÚR SÖGU VÍSINDANNA
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=