Maður og náttúra

123 ÞRÓUN LÍFSINS Maðurinn er ógn við líffræðilega fjölbreytni Mannkynið stendur frammi fyrir margvíslegum umhverfisvanda. Einn þáttur vandans er sú staðreynd að maðurinn heldur sífellt áfram að skerða líffræðilega fjölbreytni. Þegar við eyðileggjum vistkerfi þar sem margar lífverur eiga sér sinn sess útrýmum við um leið fjöldamörgum tegundum lífvera á svæðinu, hugsanlega deyja þær þar með algerlega út. Þegar menn fella til dæmis regnskóg til þess að fá beitiland fyrir húsdýr eða akra fyrir nytjaplöntur missa allar tegundir skógarins sinn sess. Þær tegundir, sem hafa þróast og lagað sig að umhverfi sínu í regnskóginum um milljónir ára, eiga skyndilega á hættu að deyja út. Landbúnaður og skógrækt nútímans stuðla líka að því að draga úr líffræðilegri fjölbreytni því að yfirleitt rækta menn aðeins örfáar teg- undir á stórum svæðum. Erfðabreytileiki innan hverrar tegundar er líka yfirleitt mjög lítill. Allar ræktuðu plönturnar eru því sem næst eins. Það er ákaflega mikilvægt að varðveita líffræðilega fjölbreytni. Erfðafræðilegur breytileiki er forsenda þess að plöntur og dýr geti lagað sig að nýju umhverfi þar eð náttúruvalið velur úr þá einstaklinga sem eru hæfastir hverju sinni. Þess vegna er okkur skylt að vernda svæði með ósnortinni náttúru. Við getum ekki með góðu móti endur- vakið lífverutegund sem hefur orðið aldauða. Líffræðileg fjölbreytni hefur líka mikið efnahagslegt gildi. Í regnskógum Madagaskar vex planta sem kallast vonarneisti og hún inniheldur efni sem er árangursríkt lyf gegn blóðkrabbameini í börnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=