Maðurinn hugur og heilsa

83 Hvernig er hægt að stöðva eineltið? Með því að tala um það. Um allt land er fólk sem veit af því að einhver verður að þola einelti en gerir ekkert til að stöðva það. Einelti er stundað í flestum bekkjum í öllum skólum. Trúlega verður einhver var við að í frímínútunum skemmta sér einhverjir á kostnað einhvers bekkjarfélaga en þorir ekki að segja frá því. Ef allir hefðu dug í sér til að benda á þá sem að einelti standa, hvernig færi þá? Þá þyrðu hrekkjusvínin ekki að halda áfram. Þannig – og aðeins þannig – væri hægt að vinna bug á öllu einelti í skólunum. Hvað á þolandi eineltis að gera? Miklu skiptir að þolandinn segi frá hvernig honum líður. Það sem hugsað er sem grátt gaman í frímínútum og flestir hlæja að, kemur kannski illa við þann sem gamanið beinist gegn og veldur sárum leiðindum. Þá er um að gera að tala um það við einhvern. Ef einhver fullorðinn kemst að raun um að einelti fer fram í skólanum þínum verður hann eða hún að skerast í málið. Þetta þarf ekki að vera kennari þinn, það gæti eins verið gangavörður eða starfsmaður í skólaeldhúsi. Þú átt kröfu á því að á þig sé hlustað. Ef hinir fullorðnu bregðast ekki við, hvað er þá til ráða? Því miður er algengt að fullorðinn maður leiði kvörtun barns um einelti hjá sér með orðum eins og: „Farðu þá og leiktu þér við einhvern annan!“ Kannski þorir hann ekki að takast á við vandann. Því er nú miður, en þá er bara að tala við einhvern annan. Ekki gefast upp, talaðu við fleiri fullorðna. Haltu áfram þangað til þú finnur einhvern sem tekur mark á þér. Ef þú treystir þér ekki til að trúa neinum fullorðnum fyrir vandanum er kannski ráð að tala við einhvern vin og félaga. Stundum er léttir að því að trúa öðrum fyrir vandræðum þínum. Þú býrð þá ekki ein(n) yfir þessu leyndarmáli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=