Maðurinn hugur og heilsa

74 Nýtt líf Við kynþroska verður líkami þinn fær um að eignast barn. Eftir að stelpa hefur haft tíðir í fyrsta sinn getur hún orðið barnshafandi. Það er kannski ekki æskilegt en engu að síður satt! Í líkama konu eru tveir eggjastokkar og í þeim fjöldi af eggvísum. Hver þeirra getur orðið að eggi, sem er ein stór fruma, eggfruman. Við kynþroska fara fyrstu eggin að þroskast og þá getur stúlkan gengið með barn. Síðan losnar eitt egg á mánuði úr öðrum hvorum eggjastokknum þar til konan er komin á miðjan aldur. Úr eggjastokknum fer eggið eftir annarri eggrásinni inn í legið. Ef sáðfrumur karlmanns koma inn í eggrásina getur ein þeirra frjóvgað eggið. Þá fer sáðfruman inn í eggið og þessar tvær frumur renna saman í eina, sem heldur áfram á leið inn í legið. Frjóvgaða eggfruman skiptir sér strax í tvær frumur, báðar eins. Þær skipta sér síðan og mynda sífellt fleiri frumur. Þegar þessi frumuklumpur kemur inn í legið getur hann fest sig innan á legvegginn. Þar með hefst meðganga konunar. Hún er orðin barnshafandi. Í leginu halda frumurnar áfram að skipta sér og mynda fóstur. Þegar komnar eru milljónir af frumum fer fóstrið að líkjast örlítilli mannveru. Það fær næringu og súrefni um naflastreng, sem tengir móðurina við barnið sem vex inni í henni. Eftir níu mánuða meðgöngu er fóstrið fært um að lifa utan líkama mömmu. Það fæðist þá út um leggöngin, sem þenjast út svo barnið kemst gegnum þau. Þegar það er fætt er naflastrengurinn klipptur sundur. Þaðan af getur barnið sjálft andað og nærst. 1 Nefndu helstu breytingar sem verða á líkamanum við kynþroska. 2 Á hvaða aldri er algengast að stúlkur verði kynþroska? En piltar? 3 Hvað eru tíðir? 4 Hvað er sæði? 5 Líttu á þessi fræðiorð: Egglos, mútur, sáðlát, leg. Veistu hvað þau þýða? Hvað veistu?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=