Maðurinn hugur og heilsa

67 Stelpurnar fyrst Flestar stelpur verða kynþroska á undan strákunum. Það er erfitt að segja fyrir um hvenær þetta skeið hefst, en flestar stelpur verða kynþroska 11 til 13 ára. Oft eru fyrstu merki um kynþroska hjá stelpum þegar brjóst og skapahár fara að vaxa. Svo koma tíðablæðingarnar. En engar tvær stelpur eru eins, það á líka við um kynþroskann. Einkennin eru mismunandi og koma heldur ekki alltaf í sömu röð. Sumar fá kannski snemma brjóst, aðrar seint, og oft verða brjóstin viðkvæm á meðan þau vaxa. Strákar geta líka fengið aum brjóst, þótt minna fari fyrir því. … og svo strákarnir Strákar verða yfirleitt kynþroska á eftir stelpunum. Algengt er að þeir komist á kynþroskaskeið 12 til 14 ára, en það er talsvert breytilegt og einstaklingsbundið. Við kynþroska verða bein strákanna öflugri og vöðvarnir sterkari. Allur líkaminn vex líka á lengdina og skeggvöxtur hefst, kynfærin stækka og röddin verður dýpri. Við raddbreytinguna eru drengir sagðir fara í mútur. Mörgum finnst það óþægilegt, því röddin sveiflast á milli bjartra og dimmra tóna. Ástæðan er sú að barkakýlið stækkar og með því raddböndin, og það tekur tíma fyrir líkamann að ná valdi á þessum breyttu raddfærum. Smám saman tekst það og röddin hættir að sveiflast. Rödd stúlkna verður líka dýpri við kynþroska en minna ber á því. „Ég hef aldrei kelað, enga stelpu kysst, aldrei verið með neinni og aldrei verið ástfanginn. Mannfólkið er sífellt að tala um þessa ááááááást, en mér finnst það þreytandi. Hafa mennirnir ekkert þarfara að tala um?“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=