Maðurinn hugur og heilsa
55 Skilningarvitin safna upplýsingum Skilningarvitin greina þér frá því sem fer fram í kringum þig. Án þeirra gætirðu ekki lifað. Þannig lætur tilfinningin þig vita þegar þú kemur við eitthvað oddhvasst, af lyktinni finnur þú þegar kviknað er í einhverju í grenndinni og heyrnin varar þig við bifreið sem nálgast. Hvert skynfæri sendir ákveðin boð til heilans. Það eru til dæmis skynfæri tilfinningar sem senda boð til heila Maríu þegar hún er kitluð. Úr boðum allra skynfæranna, öllum skilningarvitunum, fær heilinn heildarmynd af umhverfinu. Hann ákveður líka hvernig þú bregst við öllum þessum boðum. Tilfinningin Í öllum líkama þínum eru skynfæri sem greina tilfinningu. Tilfinningin getur verið af ýmsu tagi, sum finna sársauka, önnur hita, enn önnur kulda, snertingu eða þrýsting. Hvergi eru fleiri skynfæri tilfinningar en í húðinni. Þegar upplýsingar frá þeim berast til heilans, bregst hann strax við og fær þig til dæmis til að klæða þig betur þegar kalt er úti. En tilfinningin er misnæm eftir hlutum líkamans. Munnur og tunga eru mjög viðkvæm, því þar sitja skynfærin mjög þétt. Fingurgómar og iljar eru líka næm svæði, en á bakinu eru skynfærin mun dreifðari. Sjálfspróf! Þú getur prófað mismunandi næmi líkamshlutanna. Leggðu aftur augun og láttu félaga þinn strjúka ýmsa hluta húðarinnar létt með fjöður. Þá finnurðu muninn. Ábending : Næmið er mest þar sem mann kitlar mest. Fleiri skilningarvit Oft er sagt að skilningarvitin séu fimm: sjón, heyrn, lykt, bragð og tilfinning. En þau eru í raun fleiri. Tilfinningin í húðinni er til dæmis samsett. Auk þess höfum við jafnvægisskynfæri í eyrunum, og í vöðvunum eru skynfæri stöðuskyns eða sjálfsskyns, en það gerir okkur kleift að skynja innbyrðis afstöðu líkamshlutanna, svo sem hvort tiltekinn fingur er réttur eða krepptur, eða hvort munnurinn er opinn eða lokaður. fróðleikur
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=