Maðurinn hugur og heilsa

Hæ! Ég heiti Súsanna. Þegar ég var 13 ára veiktist ég af lystarstoli. Það gerbreytti lífi mínu. Þetta hófst sumarið á milli þess sem ég var í sjötta og sjöunda bekk. Ég fór að heiman og léttist um nokkur kíló í ferðinni. Þegar ég kom heim fóru allir að hrósa mér: „Þú ert aldeilis glæsileg!“ „En hvað þú ert orðin grönn og nett!“ Þá fékk ég það í höfuðið að því grennri sem ég yrði, þeim mun fallegri yrði ég. Ég fór þá að halda í við mig í mat til að léttast enn frekar. Fljótlega hætti þetta að vera venjuleg megrun. Ég breyttist úr grannri stelpu í horgrind. Ég þjáðist af lystarstoli. Á þessum tíma fannst mér ég vera undir miklu álagi. Það var svo margt sem maður átti að vera. Ég þurfti að standa mig í náminu, eignast marga vini, vera sæt,skemmtileg og vinsæl. Jafnframt er svo ofsamargt að breytast í líkamanum á þessum aldri og hætt við að maður missi tökin á tilverunni. Hvað langar mig í? Hvað ætla ég að verða? Átröskunin varð að haldreipi á flótta frá öllu þessu. Það var svo einfalt að láta lífið bara snúast um eitt jafn áþreifanlegt og mat og át, og láta allt annað eiga sig. Þreytt og niðurdregin Ég varð snillingur í að ljúga til að leyna sjúkdómi mínum. Allt líf mitt fór að snúast um mat. Hver vikan af annarri fór í það eitt að skipuleggja hvað ég ætti að borða og hvernig ég gæti komist hjá því að láta mat ofan í mig. Samband mitt við skólafélagana rofnaði. Ég gat fátt farið með þeim því hvarvetna var matur í boði: „Nú förum við í bíó og fáum okkur svo pitsu á eftir.“ Héldu þau að ég væri snarvitlaus? Aldrei á ævinni ætti ég eftir að fá mér pitsu! Veikindin umturnuðu lífi mínu. Matarleysið gerði mig þreytta og niðurdregna. Ég fór að skrópa úr kennslustundum og óttast alla umgengni við fólk. Eg þorði ekki að horfast í augu við nokkurn, þorði ekki að tala innan um ókunnuga, þorði ekki að láta skoðun mína í ljós. Ég dró mig í hlé og lokaði mig oftast inni í herbergi mínu. Ég varð hræðilega einmana. Batinn tók langan tíma Botninum var náð þegar ég uppgötvaði að ég átti ekki lengur neina vini. Þegar ég hlustaði á skólasystkinin tala um hvað þau hefðu gert um helgina rann það upp fyrir mér að þau voru hætt að hringja í mig. Það var þetta sem kom mér til að leita mér hjálpar vegna átröskunarinnar. Þá voru nærri fimm ár liðin frá því að ég veiktist. Ég ætla ekki að rekja það í smáatriðum hvernig mér batnaði. Svo mikið er víst að það tók langan tíma! Langan og erfiðan tíma – en það tókst. Nú er ég 24 ára og laus við alla átröskun. Sjúkdómurinn stýrir ekki lengur lífi mínu, það geri ég sjálf. Og því fylgir betri líðan en ég get lýst! Ekki missa sjálfstraustið Þegar ég leiði hugann að tímanum þegar veikindi mín hófust óska ég þess að ég gæti náð til þeirrar tólf ára stelpu sem ég var þá og fengið hana til að skilja að hún eigi að taka mark á sjálfri sér. Hvergi er betra að vera en hjá félögum og á stöðum þar sem maður fær að njóta sín eins og manni líður hverju sinni (hlæjandi, klunnaleg, kjánaleg, barnsleg, þegjandi, reið, eða hvernig sem það nú er). Tilfinningarnar skipta miklu máli. Ekki missa tökin á þeim! Bless, bless Súsanna Þegar maturinn verður óvinur manns 48

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=