Maðurinn hugur og heilsa

41 Hóf er best Enginn getur lifað matarlaus. Maturinn er hráefni í frumurnar í líkama þínum. Án matar getur hann ekki myndað nýjar frumur. Auk þess þarf líkaminn orku og hana fær hann úr matnum. Því meir sem þú hreyfir þig, þeim mun meira þarftu af mat. Þú hefur eflaust tekið eftir þessu. Þú kemur mun soltnari af sundspretti í sundlauginni en af að sitja heima við lestur eða skriftir. Sundið kallar á meiri orku. Þegar matur á í hlut er líkaminn mjög kröfuharður. Hann sættir sig ekki við kjötbollur og jarðarberjaís í allar máltíðir (þótt það bragðist vissulega ágætlega). Hann þarf rétt samsettan mat, og hvorki of mikið né of lítið – hóflegt magn af öllum næringarefnum. Líkaminn safnar fituforða Mannslíkaminn er enn eins og hann var á steinöld. Þá veiddu menn dýr og söfnuðu ýmsu ætilegu og stundum var matarskortur. Líkamar manna löguðust að þessum aðstæðum. Þegar mikið var um mat safnaði líkaminn forða af fitu. Þegar harðnaði í ári notaði líkaminn þennan forða. Hér á landi geta flestir eða allir nú etið sig metta á hverjum degi. Við þurfum ekki að veiða dýr eða safna rótum og aldinum til að fá í okkur, heldur förum við akandi í næstu búð eftir matvælum. En líkamar okkar halda af gömlum vana áfram að safna fituforða. Þess vegna eru margir Íslendingar á öllum aldri of þungir. Líkaminn hefur ekki lagað sig að lífsháttum nútímans. Þú færð orku úr matnum til þess að hreyfa þig, til dæmis til að synda.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=