Maðurinn hugur og heilsa

Lífsnauðsynlegt loft Allt sem lifir þarfnast lofts. Í loftinu er súrefni sem líkami þinn getur aldrei verið án. Þess vegna þarftu að anda allan sólarhringinn. Með hverjum andardrætti fer um hálfur lítri af lofti inn í lungun. Við áreynslu þarf líkaminn meira af súrefni, og þá verður andardrátturinn hraðari og dýpri, eins og hjá Emmu þegar hún var að flýta sér í skólann. Öndunarloftið fer eftir kerfi af greinóttum leiðslum, öndunarrásunum. Mestu af þessu lofti andar þú venjulega að þér gegnum nefið. En stundum dugir það ekki til. Þegar þú hleypur og þarft mikið loft andar þú einkum með munninum. Mestu máli skiptir að nógu mikið af lofti komist niður í lungun og skili þar súrefni inn í blóðið. Jafnframt því sem blóðið tekur til sín súrefni úr öndunarloftinu, skilar það frá sér öðru efni sem líkaminn þarf að losna við. Það er loft sem kallast koltvíoxíð. Þegar þú andar frá þér fer koltvíoxíðið út um munn og nef með öndunarloftinu. Vissir þú að… ... geispi er ekkert annað en óvenjudjúpur andardráttur. Enginn veit með vissu hvers vegna við geispum, en yfirleitt gerist það þegar við erum þreytt. Geispinn örvar andardrátt og blóðrás í brjóstkassanum. Ef þið félagarnir í bekknum farið að geispa í skólanum, væri kannski rétt að gera hlé á kennslunni, opna glugga og hleypa inn fersku lofti. Þegar kalt er úti minnir útöndunarloftið á hvítan reyk.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=