Maðurinn hugur og heilsa

Milljarðar af frumum Rétt eins og snjókarl er gerður úr mörgum snjókornum er líkami þinn gerður úr mörgum örsmáum frumum. Meira að segja mörgum milljörðum! Eins og önnur dýr hefja menn ævina sem ein fruma. Sum dýr halda áfram að vera ein fruma alla ævina, til dæmis ömbur. Þessi dýr eru svo lítil að þau sjást ekki nema í smásjá. En líkami þinn hefur vaxið og þroskast heilmikið frá því þú varðst til. Frumurnar hafa skipt sér og þeim hefur fjölgað í sífellu. Því fleiri sem þær verða því stærri verður þú. Það þarf heldur enga smásjá til að sjá þig! Frumur lifa og þær deyja Ný fruma verður til við það að gömul fruma skiptir sér og verður að tveimur. Margar af nýju frumunum bætast við þær sem fyrir voru í líkamanum svo að hann stækkar. Auk þess er þörf fyrir nýjar frumur í stað þeirra sem slitna og eyðast. Frumurnar lifa mislengi. Sumar lifa ekki nema nokkrar klukkustundir, aðrar endast okkur ævilangt. Þegar fruma deyr hefur líkaminn ekki lengur þörf fyrir hana. Hún er þá brotin niður í smáparta sem notaðir eru sem efni í nýjar frumur. Hluti af þeim fer samt út úr líkamanum í þvagi og saur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=