52 MENNTAMÁLASTOFNUN – BARNAHEILL 2023 | 40342 | LÍKAMI MINN TILHEYRIR MÉR – 1.–4. BEKKUR UPPLÝSINGASKYLDA Öllum starfsmönnum í skólum og leikskólum ber að tilkynna um ofbeldi gegn börnum samkvæmt 17. gr. Barnaverndarlaga (80/2002) og Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna leik-, grunn- og framhaldsskóla til barnaverndar. Með þessum verklagsreglum er gert ráð fyrir að starfsmenn leik-, grunn- og framhaldsskóla meti hvort ástand, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndarþjónustu. Tilkynna skal um grun, ekki aðeins staðfestar sannanir. Það er síðan starfsfólk barnaverndarþjónustunnar sem metur hvort grunur sé nægilega rökstuddur og taka ákvörðun um frekari könnun í framhaldi af því. Hver skóli þarf að hafa ákveðið verklag um hvernig tilkynnt er til barnaverndarþjónustu og hver gerir það. Mikilvægt er að allir starfsmenn skólans þekki þetta verklag. Gert er ráð fyrir að tilkynnt sé í nafni stofnunarinnar og að tilkynningin sé á ábyrgð hennar en ekki einstakra starfsmanna. Kynferðislegt ofbeldi er skilgreint sem kynferðisleg athöfn gagnvart barni innan 15 ára aldurs með eða án vilja barnsins og kynferðisleg athöfn gagnvart eða með barni 15 ára eða eldra án vilja barnsins. • Dæmi um kynferðislegt ofbeldi sem starfsmenn skóla verða vitni að og ættu að tilkynna um til barnaverndar: Barn látið horfa á klámefni eða kynfæri eða teknar myndir af barni í þeim tilgangi að örva aðra kynferðislega. • Þuklað innan klæða á kynfærum barns eða barn látið þukla á kynfærum einhvers. Yfirleitt eru foreldrar látnir vita af tilkynningunni og þeim gerð grein fyrir að starfsmenn skóla séu að fylgja lagaskyldu um að tilkynna grun um vanrækslu eða ofbeldi til barnaverndarþjónustu. Málið snýst alltaf um velferð barnsins og stuðning við það og fjölskyldu þess fremur en ásökun í garð foreldra. Markmiðið er að leita lausna og veita viðeigandi stuðning. Þegar grunur hefur vaknað um að barn búi við ofbeldi á heimili sínu, hvort sem er líkamlegt eða kynferðislegt, er haft beint samband við barnaverndarþjónustu án þess að upplýsa foreldra um það. Ef barn býr með einhverjum sem beitir ofbeldi er hætt við að barnið verði beitt enn meira ofbeldi eða hótunum ef viðkomandi veit af tilkynningunni. Meintur gerandi má ekki fá tækifæri til að hafa áhrif á framburð barnsins þar sem þessi mál sæta stundum einnig lögreglurannsókn. Ef barn kemur með sýnilega áverka í skóla eða segir frá alvarlegu ofbeldi skal samstundis hafa samband við barnaverndarþjónustu. Barnaverndarþjónusta á að hafa greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um börn og foreldra við könnun barnaverndarmáls til að meta aðstæður barnsins. !
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=