46 MENNTAMÁLASTOFNUN – BARNAHEILL 2023 | 40342 | LÍKAMI MINN TILHEYRIR MÉR – 1.–4. BEKKUR Sýndu huggun og umhyggju en virtu mörk barnsins Spyrðu barnið hvort það vilji faðmlag eða aðra líkamlega snertingu. Börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi upplifa snertingu á mismunandi hátt. Faðmlag, sitja í fanginu og klapp á bakið getur verið sem árás og valdið óöryggi hjá sumum börnum á meðan önnur upplifa það sem hjálp og stuðning. Skrifaðu niður það sem barnið segir Það er mjög mikilvægt fyrir frekari eftirfylgni að skrá niður eins nákvæmlega og hlutlaust og hægt er, bæði það sem barnið segir og hvaða spurningar vakna í huga þér. Það er grunnurinn að frekari eftirfylgni þinni og hjálpar þér að forðast misskilning og treysta því að þú sért að muna rétt. Það gerir þér líka kleift að rifja upp síðar það sem þú skrifaðir, ef nokkur ár líða. Skrifaðu helst samantektina ásamt barninu til að forðast misskilning. Útskýrðu hvers vegna þú vilt skrifa niður það sem barnið segir og spyrðu hvort það sé í lagi að skrifa minnispunkta meðan þú talar. Ræddu við barnið um það sem þú skrifar niður. Það getur hjálpað þegar lengra líður á samtalið þannig að það getur verið eðlileg leið til að endurtaka það sem barnið hefur sagt. Ef það er ekki hægt að skrifa minnispunkta meðan á samtalinu stendur er gott að skrá það niður strax að því loknu. Vertu viss um að þú skráir niður aðalatriðin; hvað gerðist, hver átti í hlut og hvenær það gerðist. Ef barnið vill EKKI segja eitthvað, til dæmis hver gerði það, skrifaðu það þá bara niður. Einnig er gott að skoða vel atferli barnsins og hvernig það kemur fram. Það gæti verið góð hugmynd að ræða við barnið um hvernig því líður meðan á samtalinu stendur, svo þú öðlist betri skilning af því sem að baki liggur. Það er mjög mikilvægt að þú gerir greinarmun á því sem barnið sagði og hver upplifun þín og túlkun er. Segðu barninu að það sé ekki eitt Mörg börn sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi telja að þau séu ein um upplifunina og tilfinningar sínar. Ekki hika við að segja að þú vitir um önnur börn sem hafa upplifað þetta sama. Ef þú þekkir eða veist um eitthvað svipað og barnið er að upplifa skaltu deila því með barninu. Það getur hjálpað að heyra að aðrir hafa upplifað það sama og fundið fyrir sömu sársaukafullu og erfiðu hugsununum. Segðu að þú trúir á barnið og að það hafi verið rétt að segja frá Þegar barn segir þér frá kynferðislegu ofbeldi skaltu trúa því sem barnið segir. Börn ljúga sjaldan í þannig málum, það er frekar að þau reyni að ljúga sig út úr þessari reynslu. Allavega er það ekki þitt hlutverk að vera einkaspæjari eða lögregluþjónn. Þú verður að hlusta á barnið, hjálpa og styðja það við að segja frá og miðla því sem þér er sagt. Sýndu barninu að þú metir það traust sem þér er sýnt og að það hafi verið rétt að segja þér frá. Gerðu barninu ljóst að það hafi verið rétt og gott að segja frá og að þú sem fullorðinn beri ábyrgð á að hjálpa barninu að vinna málið áfram.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=