Líkami minn tilheyrir mér - Klb. með samtalsspjöldum fyrir l

22 LÍKAMI MINN TILHEYRIR MÉR – LEIKSKÓLI | MENNTAMÁLASTOFNUN – BARNAHEILL 2023 | 40340 | r Sýndu barninu að þú metir mikils traustið sem þér er sýnt og að það hafi verið rétt ákvörðun að segja þér frá. Gerðu barninu alveg ljóst að það hafi ekki gert þér neinn óleik með því að segja þér frá þessu og að þú sem fullorðin manneskja berir ábyrgð á að veita áframhaldandi aðstoð. Veittu barninu öryggi og fyrirsjáanleika, en ekki lofa neinu sem þú getur ekki staðið við. Segðu sannleikann! Þegar barn segir frá ofbeldi getur það leitt til mikilla breytinga í lífi þess, sem geta virst óreiðukenndar og ógnvekjandi. Barnið missir stjórnina og yfirsýnina. Sem fullorðin manneskja getur þú hjálpað barninu að finna til öryggis með því að fullvissa það um að þú ætlir að hjálpa og munir komast að því hvað er best að gera. Um leið getur þörfin fyrir að hughreysta barnið orðið mjög sterk og hætt við að þú lofir einhverju sem þú getur ekki staðið við. Það er mjög mikilvægt að forðast þetta, þar sem það getur skapað enn meira óöryggi. Útskýrðu hvað þú ætlar að gera við upplýsingarnar sem þú hefur fengið og hvers vegna. Ekki hika við að ræða við barnið um það sem barnið sjálft er að hugsa, og „hugsa upphátt“ með því – allt eftir aldri þess og þroska. Vertu með það á hreinu að þú viljir að barnið fái vernd og aðstoð þannig að hægt sé að stöðva ofbeldið og barnið verði öruggt. Forðastu að segja: Segðu frekar: „Nú verður allt í lagi.“ „Þú munt aldrei þurfa að verða fyrir ofbeldi aftur.“ „Ég lofa að segja engum öðrum frá þessu.“ „Það var mjög gott hjá þér að segja mér þetta. Þú sýndir mikið hugrekki. Börn eiga aldrei að eiga leyndarmál eins og þetta ein og sjálf. Nú ætla ég að komast að því hvað við getum gert til að hjálpa þér.“ Verið meðvituð um ábyrgðar- og sektarkennd barnsins Börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi finna nánast alltaf fyrir sektarkennd og skömm. Það getur verið vegna þess hve mikil bannhelgi er yfir slíku ofbeldi, vegna einhvers sem gerandinn hefur sagt eða vegna þess að barnið veitti ekki virka mótspyrnu og finnst því að það „hafi samþykkt ofbeldið“. Gerðu barninu algerlega ljóst að það er aldrei því að kenna ef fullorðnir beita það ofbeldi. Það skiptir engu hvað barn hefur gert, það er aldrei barninu að kenna. Forðastu að skrímslavæða þann sem beitir ofbeldi Ofbeldið er oft framið af einstaklingi sem börnin þekkja og elska. Þetta getur líka verið manneskja sem gerir oft eitthvað gott fyrir barnið. Ef þú talar um gerandann sem „vondan“ eða „ógeðslegan“ getur það orðið til þess að barnið hætti að kannast við sig sjálft í lýsingunni og dragi frásögn sína til baka. Barnið getur líka haft áhyggjur af hugsanlegum afleiðingum fyrir gerandann ef leyndarmálið er gert opinbert. Ef þú leggur áherslu á að það eigi að refsa gerandanum og senda hann í fangelsi getur það haft slæm áhrif og einnig leitt til þess að barnið vilji ekki lengur segja frá eða dragi frásögnina til baka, vegna þess að það vill vernda gerandann.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=