18 LÍKAMI MINN TILHEYRIR MÉR – LEIKSKÓLI | MENNTAMÁLASTOFNUN – BARNAHEILL 2023 | 40340 | Að þykja spurningar um líkamann og kynferðisofbeldi óþægilegar Sumum fullorðnum finnst vandræðalegt og óþægilegt að eiga samtöl um líkama og kynheilbrigði. Þetta getur orðið hindrun sem kemur í veg fyrir slík samtöl. Þá getur verið gagnlegt að hugleiða fyrir fram hvernig á að útskýra málið, til að falla ekki í stafi þegar á hólminn er komið. Þá er mikilvægt að hugleiða hvernig hægt sé að vernda bæði eigið einkalíf og einkalíf barnsins. Líkaminn og kynheilbrigði eru persónulegt umræðuefni og þegar slíkt er rætt við barn þarf að umorða hlutina, frá hinu einstaklingsbundna og yfir í hið almenna samhengi. Það þýðir m.a. að fullorðnir eiga ekki að ræða við börn um eigin kynferðislegu reynslu. Ef barnið spyr þig um þitt kynlíf skaltu segja að það sé einkamál sem þú viljir hafa út af fyrir þig. Mikilvægast er að hafna engum spurningum frá barninu eða fá það til að skammast sín fyrir að spyrja. Hlustaðu vel á það sem barnið spyr um og reyndu að svara eftir bestu getu, á heiðarlegan og hreinskilinn hátt og án þess að fara yfir mörk einkalífsins. Ef þú færð spurningar sem þér finnst ekki hæfa þroskastigi barnsins eða varða eitthvað sem barnið ætti ekki að vita neitt um skaltu velta fyrir þér hvaðan barnið hafi slíkar upplýsingar. Er barnið í raun að spyrja um það sem þú heldur að spurningin varði? Hefur það fengið upplýsingar frá eldri systkinum? Er barnið hugsanlega þolandi ofbeldis? Ótti við að börnin fái „hvatningu“ til að gera tilraunir með eigin kynvitund Sumir fullorðnir óttast að fræðsla um kynheilbrigði virki sem hvatning til að prófa það sem börnin hafa verið frædd um, hvort sem þau eru tilbúin eða ekki. Þá er mikilvægt að hafa í huga að öll börn upplifa kynferðislegar kenndir og forvitni um eigin líkama og líkama annarra. Mörg börn byrja snemma að fróa sér og fara í kynferðislega leiki með öðrum börnum. Þetta er eðlilegt, heilbrigt og algengt og það er gífurlega mismunandi hversu mikið og á hvaða aldri þau byrja að gera tilraunir með kynvitund sína. Börn eiga að fá að gera slíkar tilraunir á náttúrulegan, sjálfsprottinn hátt, skilja hvað er gott og hvað er ekki gott og hvað er hættulegt eða ólöglegt. Við fullorðna fólkið þurfum að hjálpa börnunum að skilja hvar þeirra mörk liggja og þroska með sér skilning og virðingu fyrir mörkum annarra. Fræðsla og umræður um líkamann, mörk og ofbeldi í leikskólanum auðvelda börnum að tileinka sér þessa þekkingu. Skortur á viðbragðsfærni Margir leikskólar sem Barnaheill í Noregi áttu samtal við í tengslum við þetta verkefni hafa verið hikandi við að takast á við kynferðisofbeldi í fræðslu vegna þess að starfsfólk óttast að bregðast ekki rétt við ef grunur vaknar um ofbeldi eða barn segir frá ofbeldi. Mörg hafa áhyggjur af því, ýmissa hluta vegna, að gera mistök, að geta ekki veitt barninu viðeigandi hjálp, að glata trausti foreldranna og að barnið verði jafnvel tekið úr leikskólanum. Það er mikilvægt að starfsfólk leikskólans sé vel undirbúið, undirbúi sig bæði andlega og verklega fyrir mismunandi aðstæður og eigi gott samtal við stuðningsaðila hjá sveitarfélaginu um rétt verkferli og viðbrögð. Tilmælin í þessum bæklingi um eftirfylgni ef áhyggjur vakna vegna barns vonum við að geti líka verið til hjálpar og aukið öryggi og hæfni til athafna hjá starfsfólki í leikskólanum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=