Lífheimurinn

78 Lindýr og skrápdýr Lindýr – mjúk dýr með harðri skel Öll lindýr einkennast af mjúkum líkama sem skiptist yfirleitt í höfuð, fót og bol, þar sem flest innri líffæri eru. Flest lindýr hafa einhvers konar skel. Sum lindýr anda með húðinni, önnur með tálknum eða einföldum lungum. Sniglar og samlokur eru lindýr. Allar samlokur hafa skel en ekki allir sniglar. Ef hætta steðjar að geta dýrin dregið viðkvæman líkamann inn í skelina og lokað að sér. Smokkar , sem eru yfirhópur yfir kolkrabba og smokkfiska, eru líka lindýr. Til eru örfáar tegundir með ytri skel, fæstar hafa sýnilega skel en sjá má leifar hennar hjá sumum smokkfiskum. Sniglar hafa eina skel (eða enga) Sniglar lifa bæði á landi og í vatni. Margir þeirra hafa um sig snúna skel sem kallast kuðungur . Þeir skríða inn í hann ef hætta steðjar að. Sumir loka sig líka inni í kuðungnum á veturna og leggjast í dvala. Aðrir sniglar, til dæmis brekkusnigill sem er algengasti landsnigillinn hér á landi, hafa ekki neinn kuðung. Á höfði snigla eru fjórir angar sem kallast horn og á endum þeirra eru augun og önnur skynfæri. Sniglar skríða áfram á fætinum og beita göddóttri tungunni, skráptungunni, sem er í munninum á miðjum fæt­ inum, til þess að rífa í sig plöntur eða smá dýr. Samlokur hafa tvær skeljar Mjúkur líkami samloku er varinn með tveimur skeljum sem haldið er saman með sterkum vöðvum. Hjá sumum tegundum eru skelj­ arnar þaktar innan með gljáandi efni sem heitir perlumóðir. Ef sandkorn kemst inn í skelina hleðst perlumóðir utan á sandkornið og perla getur myndast. Sumar samlokur eru tíndar og nýttar til matar, til dæmis ostrur og kræklingur . Sumar samlokur hreyfa sig úr stað með því að stinga mjúkum fæt­ inum út á milli skeljanna og beita honum, til dæmis til þess að grafa sig í sand. Nokkrar tegundir, til dæmis hörpudiskur, skella aftur skeljunum og þjóta þá upp af botninum ef á þær er ráðist. Samlokur anda með því að láta vatn streyma gegnum líkamann og tálknin taka súrefni úr vatninu. Um leið sía þær svif og aðrar fæðuagnir úr vatninu. 6.3 Brekkubobbi er önnur tveggja tegunda stórvaxinna landsnigla á Íslandi sem bera kuðung. Kræklingar eru samlokur. Skeljarnar opnast þegar dýrin taka inn sjó og veiða svif og fæðuagnir úr vatninu og taka úr því súrefni. Kræklingar eru stundum ræktaðir á böndum sem er komið fyrir í sjó.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=