Lífheimurinn

75 6.2 Svampdýr og holdýr Með svampdýrum í sturtu Til eru mörg þúsund tegundir af svampdýrum. Stærstu svampdýrin eru um tveir metrar á hæð. Flest svampdýr lifa á grunnsævi, uppi undir fjöruborði, en sumar tegundir þeirra þrífast á margra kílómetra dýpi í hafdjúpunum. Flest þeirra eru föst við botninn og lifa einkum í heitum höfum. Þau finnast þó líka í kaldari höfum, til dæmis hér við Ísland, í fjörum og á landgrunninu og sumar tegundir lifa í stöðuvötnum. Ein tegund vatnasvamps hef­ ur fundist á Íslandi. Á strönd Miðjarðarhafsins má víða finna stór svampdýr sem hefur rekið á land. Kafarar hafa líka atvinnu af því að sækja svampdýr á hafsbotn og selja þau sem þvotta­ svamp . Ekta þvottasvampur er þurrkuð stoðgrind svamp­ dýra af tilteknum tegundum. Hann þekkist frá þvotta­ svampi úr gerviefni á því að sá náttúrulegi er yfirleitt óreglulegur í lögun og drapplitaður, en hinn getur verið í skærum litum og er jafnan reglulega formaður. Þessi svampdýr eru í útrýmingarhættu vegna um­ hverfisröskunar og vegna mikillar ásóknar manna. Sérhæfðar frumur Svampdýr eru afar einföld, fjölfruma dýr. Frumur þeirra eru sérhæfðar til tiltekinna starfa. Ein gerð frumnanna er með stuttum svipum sem færir vatn inn í mörg lítil holrými í dýrinu. Þar inni eru frumur sem éta svif og lífrænar agnir sem berast með vatninu. Vatnið streymir svo út um op sem er efst á dýrinu. Aðrar frumur mynda stoðgrind sem ber dýrið uppi. Enn aðrar frumur mynda egg og sáðfrumur . Eggfrumurnar frjóvgast í vatninu og þá verður til lítil lirfa. Hún sest síðan á botninn og verður að nýju svampdýri. Ekta þvottasvampur er mjúkur og góður til að þvo sér með. Svampurinn sjálfur er þurrkuð stoðgrind svampdýrsins, en frum- urnar eru horfnar úr honum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=