Lífheimurinn
19 BAKTERÍUR OG VEIRUR Hröð fjölgun Flestar bakteríur fjölga sér með því að skipta sér í miðju og þá verða til tvær nýjar bakteríur. Þetta gera þær þegar nóg er af næringu og hæfilega heitt og rakt. Við slíkar aðstæður þrífast bakteríurnar sér- staklega vel. Ein baktería getur skipt sér og orðið að mörgum milljónum baktería á einum sólarhring. Blábakteríur geta fjölgað sér mjög hratt í hlýjum og næring- arríkum stöðuvötnum. Vatnið verður þá grænt og slikja myndast oft á yfirborðinu. Þótt bakteríurnar séu hvorki þörungar né blóm- plöntur kallast þetta oft þörungablómi . Þegar blábakteríur fjölga sér svona gríðarlega láta þær frá sér eiturefni sem geta skaðað aðrar lífverur vatnsins. Dvalagró Ef lífsskilyrði versna hjá bakteríum geta þær myndað um sig vernd- andi hjúp og þá breytast þær í svokölluð dvalagró . Þetta gerist til dæmis ef of þurrt verður kringum þær. Bakteríurnar lifa sem gró þar til skilyrði í umhverfinu verða hagstæð á ný, kannski þúsundum ára síðar. Þá opnast gróin og bakteríurnar „vakna til lífsins“ á ný. Bakteríur og hringrás náttúrunnar Fæstar bakteríur hafa blaðgrænu og þess vegna geta þær ekki búið til eigin næringu. Þess í stað lifa þær á öðrum lífverum, ýmist lifandi eða dauð- um. Þær þrífast best ef þær geta komið sér fyrir í fæðunni sjálfri, til dæmis í eða á lífverum eða leifum þeirra. Þegar bakteríur nærast á dauðum plöntum eða dauðum dýrum eru þær mikilvægur hlekkur í hringrás náttúrunnar . Ásamt sveppum og ýmsum smádýrum brjóta þær niður dauðar lífverur og breyta þeim í mold. Lífverur sem lifa þannig kall- ast sundrendur . Við getum þakkað það þessum lífverum að nytsamleg efni, sem eru í dauðum lífverum, losna út í náttúruna á ný. Plöntur taka svo til sín þessi efni um rætur sínar og nýta þau til vaxtar. Það getur verið varasamt að baða sig í vatni þar sem mikill fjöldi blábaktería þrífst vegna eiturefna sem þær geta látið frá sér. Í venjulegum safnhaugi iðar allt af lífi. Aragrúi baktería og annarra sundr- enda brjóta niður úrgang og breyta honum í góða gróðurmold. Í einni mat- skeið af mold geta verið tíu milljarðar baktería.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=