Lífheimurinn

125 ATFERLISFRÆÐI Merki til að hræða Í langri þróunarsögu lífvera hafa margvísleg einkenni meðal dýra þróast vegna þess að einkennin juku lífslíkur þeirra. Dýr, sem eru eitruð eða bragðvond, hafa oft mjög áberandi varnaðarliti sem önn­ ur dýr eiga auðvelt með að þekkja. Fugl, sem hefur einu sinni étið maríuhænu, reynir það ekki aftur því að hún er afar bragðvond. Hættulaus dýr eru oft lík hættulegum dýrum og komast þá betur af fyrir vikið. Hefur þú tekið eftir gul- og svartröndóttum randa­ flugum á sveimi úti? Þær eru algerlega hættulausar en þær minna svolítið á geitunga, sem dýr forðast yfirleitt, og dýrin láta því randaflugurnar eiga sig líka, til öryggis. Það kallast herming þegar dýr líkist öðru í útliti. Listin að dyljast Dýr geta líka varist óvinum með því að dyljast fyrir þeim. Margir kvenfuglar, ungar og egg eru því í litum sem falla vel inn í um­ hverfið. Þau eru í felulitum . Ef hætta steðjar samt sem áður að þeim gefa foreldrarnir frá sér varnaðarhljóð sem veldur því að ungarnir liggja grafkyrrir þar sem þeir eru. Margir fuglar þykjast stundum vera dauðir eða stórslasaðir til þess að blekkja óvininn eða lokka hann frá eggjum eða ungum. Önnur aðferð til þess að verjast óvinum er fólgin í því að dýr sömu tegundar slá sér mörg saman og mynda hóp , til dæmis fiskar, sem mynda torfu, eða selir og hvalir sem fara saman í vöðu . Dýrin verða óárennilegri ef þau eru mörg saman, óvinurinn verður líka ringlaður og á erfitt með að velja úr eitt dýr af svo mörgum svo að hann gefst oft bara upp. „Gættu að þér! Ég er hættuleg!“ Randaflugur líkjast geitungum og eru því látnar í friði þótt þær séu algerlega hættu­ lausar. Sérðu fiðrildið á trjástofninum? Mörg dýr hafa tekið upp felugervi þar sem sérstakur litur eða litir og sérstök lögun gerir þeim kleift að falla einstaklega vel inn í umhverfi sitt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=