Lífheimurinn

116 7.1 Fræðin um atferli dýra Dýr sýna margvíslega hegðun. Þau geta til dæmis ráðist á önnur dýr, vingast við þau eða sýnt kynferðislegan áhuga. Hegðun dýra almennt kallast atferli og fræðigreinin, sem fjallar um það, kallast atferlisfræði. Þeir sem fást við hana kallast atferlisfræðingar. Atferli dýra er að hluta meðfætt en annað lærist með tímanum. Hjá ungum sumra dýra er það til dæmis meðfætt atferli að hlaupa í felur þegar þeir sjá ránfugl. Þegar þeir eldast læra þeir af foreldrum sínum eða af eigin reynslu hvernig þeir eiga að takast á við aðrar hættur sem bíða þeirra. Þannig tileinka þeir sér lært atferli . Meðfætt atferli Atferlisfræðingar geta rannsakað hvort tiltekin hegðun er meðfætt eða lært atferli með því að skoða hegðun dýra sem alast upp þannig að þau eru aldrei í snertingu við önnur dýr af sömu tegund. Þá læra þau ekki hegðunina af foreldrum eða systkinum sínum eða af öðrum dýrum af sömu tegund. Flughæfni fugla er til dæmis meðfæddur eiginleiki, enda læra fuglar, sem alast bara upp með mönnum, líka að fljúga. Hæfileiki manna til að ganga er á sama hátt meðfæddur eiginleiki. Enginn kennir okkur að ganga. En við förum ekki að ganga fyrr en við höfum þroska til þess – þrátt fyrir að foreldrar okkar haldi okkur af kappi við æfingar. Sennilega er bros okkar, hlátur og grátur líka meðfæddir eig­ inleikar. Blind börn brosa, hlæja og gráta eins og önnur börn. Mjög margt í hegðun gauksins, sem elst ekki upp hjá sinni eigin tegund, er meðfætt. Unginn ýtir til dæmis öðrum eggjum úr hreiðrinu um leið og hann klekst út. Fullorðinn gaukur syngur sinn söng án þess að hafa lært hann af öðrum. Meðfætt og lært atferli

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=