Lífheimurinn

100 DÝR Slöngur eru oftast hættulausar Eitt helsta einkenni slangna er að þær eru allar fótalausar og mjaka sér áfram á kviðnum. Til eru um 3000 tegundir slangna og langflestar eru með öllu hættulausar mönnum. Flestar þeirra éta skordýr, froska og nagdýr. Þær eru nægjusamar og þurfa því ekki að éta mjög oft. Höggormi nægir til dæmis að éta um tíu mýs á ári. Slöngur eru allt að því heyrnarlausar en bragðskyn og lyktarskyn er þeim mun næmara. Þær reka út klofna tunguna sem er afar næm á lykt . Síðan strjúka þær tungunni við uppgóminn í munnholinu þar sem lyktarskynfærin eru. Slöngur eru líka afar næmar á titring í jörð­ inni. Vitað er að slöngur hafa skriðið upp úr holum sínum og fylgsnum skömmu áður en mikill jarðskjálfti reið yfir. Þegar eiturslöngur finna bráð ráðast þær til atlögu við hana og lama hana með eitri. Slangan heggur í bráðina með tveimur holum og löngum höggtönnum , eitrið spýtist fram tennurnar og í líkama bráðar­ innar sem lamast og deyr. Síðan gleypir slangan bráðina í heilu lagi. Sumar slöngur drepa bráðina ekki með eitri. Meðal þeirra eru stórar kyrkislöngur sem hringa sig utan um bráðina og kæfa hana. Húð slangna verður fyrir sífelldu hnjaski og hún skaddast oft þegar þær skríða eftir hrjúfu undirlagi. Hún endurnýjast því öðru hverju. Ný húð myndast undir gamla hamnum og að því kemur að hann rifnar. Dýrin nudda sér við fasta hluti til að flýta því að gamla húðin losni og skríða síðan úr henni. Sagt er að dýrin hafi hamskipti . Eðlur – margvísleg skriðdýr Fyrir meira en 200 milljónum ára voru uppi ógnarstórar fiskeðlur, sem minna á höfrunga, flugeðlur, sem höfðu allt að 14 metra vænghaf, og risaeðlur á landi. Þessi merkilegu dýr dóu hins vegar öll út og nú lifa eingöngu fremur smávaxnar eðlur. Stálormurinn líkist slöngu en er þó bara fóta- laus eðla. Hann lifir meðal annars í Skandinavíu. Á myndinni sést ofan á grassnák en hann er auðþekktur á gulum skellum á höfði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=