Lífheimurinn

99 DÝR Skriðdýr hafa lagað sig að lífi á landi Skriðdýr þróuðust frá froskdýrum fyrir milljónum ára og eru betur fallin til lífs á þurru landi en froskdýrin og ekki jafnháð vatni og þau. Helstu hópar núlifandi skriðdýra eru slöngur , eðlur , skjaldbökur og krókódílar . Skriðdýrin eru ólík froskdýrunum, meðal annars að því leyti að þau anda með lungum strax og þau klekjast úr eggi. Húð þeirra er þurr og þakin húðplötum eða hreistri sem verndar þau gegn ofþornun. Innri frjóvgun Egg skriðdýra frjóvgast inni í líkama kvendýrsins. Kvendýrin verpa yfirleitt eggjum sínum í hæfilega heitan sand. Um eggin er leðurkennd og mjúk skurn sem kemur í veg fyrir að þau þorni um of. Skriðdýr þurfa því ekki að hrygna í vatni eins og froskdýrin. Þegar ungarnir skríða úr eggi eru þeir mjög líkir foreldrum sínum og verða yfirleitt að bjarga sér sjálfir frá fyrsta degi. Sum skriðdýr, til dæmis höggormar, verpa ekki eggjum heldur gjóta lifandi ungum . Skriðdýr og kalt loftslag Skriðdýrin eru misheit dýr, líkt og fiskar og froskdýr. Á daginn leita þau því uppi staði þar sem er hæfilega heitt og ná þannig upp líkams­ hitanum. Hér á norðurslóðum er of kalt fyrir flest skriðdýr og á Íslandi lifa engin skriðdýr, en nokkrar tegundir lifa annars staðar á Norðurlöndum, meðal annars höggormar. Á veturna leggjast norræn skriðdýr í vetrar­ dvala. Sumar slöngur hópast til dæmis saman og skríða saman í þvögu, oft með froskdýrum og eðlum, og sofa af sér veturinn undir góðum steini eða á öðrum heppilegum stað. Ungi krókódíls skríður úr eggi. Hann er strax í upphafi smækkuð eftirmynd foreldra sinna. Það fer ekkert á milli mála að slöngur eru hryggdýr. Þær skríða áfram með því að færa til odda rifbeinanna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=