Lifandi náttúra - Lífbreytileiki á tækniöld

36 Stöð 2: Haldist í hendur og myndið hring sem á að tákna jörðina. Nefnið hluti sem við getum gert til þess að vernda hana. Farið hoppandi á næstu stöð. Stöð 3: Kíkið í kringum ykkur og finnið hluti sem tilheyra ekki náttúrunni. Stöð 4 (við tré): Lýsið trénu (er það hátt, stutt, stórt, lítið, breitt eða mjótt? Hefur það lauf eða nálar, hvernig lítur börkurinn út og hvernig er að koma við hann?). Hvað þarf tré til þess að stækka? Þakkaðu trénu fyrir að búa til súrefni fyrir okkur mannfólkið og öll hin dýrin. Farið á næstu stöð eins og fugl. Stöð 5: (poki með könglum, laufblöðum, berki, greinum o.s.frv.). Farið með höndina ofan í pokann og reynið að finna og segja frá hvað er ofan í pokanum. Farið á næstu stöð eins og kanínur. Stöð 6: (bakki með fræjum, mold, vatni og litlum blómapotti). Nefnið alla hlutina með nafni og sýnið hvernig á að nota þá. Farið á næstu stöð tvö og tvö, annað með bundið fyrir augun og hitt leiðir. Stöð 7: Snúið til hægri. Hvað sjáið þið? Nefnið fimm hluti sem þið sjáið. Farið á næstu stöð syngjandi. Stöð 8: (við, eða með mynd af, moltutunnu). Útskýrið hvað moltutunna er. Nefnið fimm hluti sem mega fara í hana. Farið á næstu stöð gangandi á tánum. Stöð 9: (ílát með hlutum sem notuð eru til þess að rannsaka náttúruna). Nefnið hlutina og segið til hvers þeir eru notaðir. Farið á næstu stöð og haldist í hendur. Stöð 10: (bindið reipi á milli nokkurra trjáa í mittishæð nemenda). Haldið í reipið með augun lokuð og fylgið reipinu á enda, það má alls ekki sleppa reipinu. Farið að stóru tré og þykist vera tröll. Stöð 11: Þegar allir hafa safnast saman á stöðina ræðið þið hvað ykkur fannst skemmtilegast að gera og syngið söng um náttúruna. 3. Til að klára kennslustundina er hægt að segja börnunum að þeim hafi tekist að leysa allar þrautirnar mjög vel og að þau séu flottir náttúruverndarar. Nú mega þau skoða í kringum sig og athuga hvort þau finni falinn fjársjóð. Verðlaunin geta verið hvað sem er en tilvalið er að hafa eitthvað sem tengist náttúrunni eins og fallegan stein eða fjöður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=