Lesrún 2

38 Hér er þriðji hluti draumsins um fjallaþingið. Fjöllin halda áfram að metast og telja upp hæfileika sína og helstu einkenni. – Svona svona, Hekla mín, ekki æsa þig, hvíslaði lítið strýtulaga móbergsfjall. Það getur komið af stað gosi á Suðurlandi og við nennum ekki að eyðileggja svona fallegan sólardag í öskuregni. Ég er ekki nema þrjú hundruð sjötíu og níu metra hár en ég þekkist auðveldlega og hef vísað sjómönnum á Reykjanesi veginn í siglingum. Svo hér sannast það að margur er knár þó hann sé smár. – Já, Keilir minn, ég skal róa mig, muldraði Hekla. Ég er drottning íslenskra eldfjalla en hef samt ekki gosið síðan árið 2000 svo þú sérð hvað ég er orðin stillt. – Iss, það er miklu lengra síðan ég gaus síðast, hnussaði í fjalli sem lá falið undir Mýrdalsjökli. Katla heiti ég og hef nú legið í dvala síðan árið 1918 og ekki einu sinni nennt að skríða undan þessum fjórtán hundruð og fimmtíu metra háa jökli sem liggur á mér. Ég er hlynnt því að leyfa Eyjafjallajökli að slást í hópinn, sagði Katla. Hann fær mig kannski til að skella í eitt kröftugt og gott Kötlugos. Svo byrjaði hún að hlæja, fyrst lágt og djúpt en fyrr en varði rak hún upp hvellan og stríðnislegan hlátur. Hin fjöllin tóku undir og þarna sat ég og hlustaði á fjöllin hlæja svo undir tók í björgunum. Lengri varð draumurinn ekki en ég kem alveg af fjöllum með hvað hann þýðir. Hvað heldur þú? Hvað merkir orðtakið að koma af fjöllum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=