10 Geimverurnar 3 Lestu áfram um ævintýri Gyðu og Gróu með geimverunum. Taktu sérstaklega eftir lýsingarorðum. Strikaðu undir þau og skoðaðu hvaða áhrif þau hafa á textann. Lestu síðan kaflann aftur með félaga og þá án lýsingarorða. Hvernig breytist textinn? Gyða og Gróa flugu með geimverunum á ógnarhraða í gegnum himinhvolfið og skyndilega birtist fyrir framan þær lítil röndótt pláneta. – Þetta er Litróf! sagði græna veran. Systurnar höfðu aldrei séð neitt jafn fallegt. Það var eins og regnboganum hefði verið vafið utan um plánetuna. Þær lentu á litríkum flugvelli þar sem allar verurnar voru gular. Þar mátti sjá ljósgular, sítrónugular, sinnepsgular, sólgular og hlandgular verur. – Ég vissi ekki að til væru svona margir gulir tónar, sagði Gróa hrifin. Gulu verurnar svifu fisléttar í kringum þær og þvoðu geimskipið með karrýgulum svömpum og burstuðu ferðarykið af fötum geimfaranna. – Þetta eru Gulurnar, sagði bláa veran. Þær sjá um varnir plánetunnar og taka á móti öllum sem hingað koma. Þær eru alltaf í góðu skapi og vilja láta taka eftir sér. Þegar komið var út af flugvellinum breyttust litirnir. Allir vegir og farartæki voru nú í rauðum litatón. Bílarnir voru eldrauðir, hjólin rósrauð, vegirnir rústrauðir og öll hús dökkrauð. – Hér búa Rauðurnar. Þær sjá um að koma öllum á rétta staði, sagði bláa veran og bauð systrunum að stíga upp í eldrauðan bíl sem svört vera ók. – Ég heiti SV1, sagði svarta veran og brosti um leið og bíllinn þaut af stað. Lýsingarorð standa með nafnorðum og lýsa þeim nánar: góður hundur grænt gras
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=