Leiðarvísir um upplestur, læsi og lestraraðferðir
168 BRÉF FRÁ HÖFUNDI EFTIR LESTUR Kæri lesandi. Takk fyrir að lesa Arfinn. Þegar maður situr einn við tölvuna og raðar saman orðum virðist tilhugsunin um að saga verði bók stundum mjög fjarlæg. Enn fjar- lægari er hugmyndin um lesanda. En þú last bókina mína og tilhugsunin um það gleður mig, nú þegar ég skrifa þetta bréf, ein heima í haustrigningu, mörgum mánuðum áður en Arfurinn kemur fyrir almenningssjónir. .Arfurinn var upphaflega bara óljós hugmynd, skrifuð í frjálsu flæði, um strák sem er mættur í erfidrykkju vinar síns. Ég vissi strax að Hannes átti að eyðileggja bók og ég vissi að Guðvarður, hinn látni, hafði verið píanókennarinn hans. Ég vissi ekki hvernig Guðvarður hafði eignast bókina, hvað stóð í henni eða af hverju þurfti að eyðileggja hana. Ég vissi ekki hvað myndi gerast ef hún yrði ekki eyði- lögð. .Ég nefndi í drögum fyrsta kaflans, í algjöru ábyrgðarleysi, 19 ára gamla formóður, til þess að árétta að Hannes og Guðvarður væru ekki skyldir. Það var líka eitthvað spaugilegt við það að stilla upp unglingi sem væri langa-langa-langa-langa-langa- langamma fjörgamals manns, fannst mér. Spaugilegt og átakanlegt í senn, auðvitað. .Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði að Friðsemd vinnu- kona hafði mikilvægu hlutverki að gegna. .En úr því að Guðvarður var dáinn, strax þarna í fyrsta kaflanum, þá þurfti Hannes minn einhvern annan til þess að halla sér að í verkefninu fram undan – ekki gat hann verið að gaufast þetta einn. Og kom upp hugmyndin um Álfrúnu Lovísu. .Rofin tengsl í fjölskyldum er þema sem er mér hugleikið. Slíkar aðstæður eru í næstum hverri einustu fjölskyldu, þó það sé ekki alltaf mikið talað um það. Það verða vinslit á milli foreldra og fullorðinna barna þeirra, systkini hætta að tala saman, eða það fæðast börn sem sumir ákveða að láta eins og hafi aldrei fæðst. .Það er eitthvað við orðasambandið fyrrverandi stjúpsystir semmér finnst áhrifa- mikið. Í þessum tveimur orðum er svo mikil saga. Fyrst um ástarsögu, bjartsýni og sameiningu tveggja fjölskyldna, og svo um sambandsslit, vonbrigði og tengsl- arof – því alveg sama hvað skilnaður fer vel fram er alltaf áfall að hafa einu sinni tilheyrt sömu fjölskyldu og sama heimili en gera það ekki lengur. Svo Álfrún varð fyrrverandi stjúpsystir. .Saman við þetta blönduðust svo hugleiðingar um áhrif veikinda – í þessu tilfelli geðsjúkdóma – foreldra á börn sín. .En svo mátti þetta auðvitað ekki vera mjög leiðinlegt! Mér fannst að sagan yrði að vera hröð og fyndin, þrátt fyrir að hún byrjaði á jarðarför og væri með dálítið þungan handfarangur. Ég lét þess vegna eftir mér að sprengja upp eins og eina bensíndælu og reyndi að hafa samtölin létt og skemmtileg. .Þú verður að leggja mat á það hvernig þetta lukkaðist allt saman hjá mér. Með bestu kveðju úr fortíðinni, Arndís
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=