Leikgleði - 50 leikir

Hreystileikir Leik gleði 37. Hákarlinn kemur Stutt lýsing: Hefðbundinn eltingaleikur, þar sem börnin reyna að komast hjá því að „hákarlinn“ sem er á miðju vallarins nái þeim, því þá breytast þau líka í hákarl og aðstoða hann. Námsmarkmið: • Þjálfun grunnhreyfinga • Líkamsvitund • Líkamshreysti • Efla skynþroska • Samvinna • Sköpunargleði Hvar: Hvar sem er. Hvenær: Allt árið um kring. Tími: Ótakmarkaður. Fjöldi: Ótakmarkaður. Undirbúningur: Minni en 10 mínútur. Áhöld: Leikurinn fer fram á velli sem er ferhyrndur. Ef völlur er ekki vel sýnilegur er ágætt að hafa fjóra hluti til að merkja hvert horn t.d. keilur. Hvernig: Einn sjálfboðaliði er fenginn til að byrja að vera hákarlinn og það barn kemur sér fyrir á miðju vallarins. Hinum börnunum er skipt upp í fjögur horn, nokkuð jafnt. Hvert horn fær eina mínútu til að koma sér saman um hvaða dýrategund sem lifir í sjónum þau vilja vera, s.s. ýsa, krabbi, lúða eða humar. Þau segja „hákarlinum“ hvaða dýrategund þau völdu. Leikurinn hefst á því að það barn sem er í miðjunni kallar út hvert horn fyrir sig og segir:„út, út, allar mínar lúður“ og svo koll af kolli. Þegar hvert horn hefur fengið útkall hleypur það í kringum hákarlinn þar til allir eru komnir af stað. Hákarlinn bíður þá rólega þar til hann er tilbúinn að kalla hátt og snjallt „hákarlinn kemur“ , þá reynir hann að fanga dýrin sem hlaupa heim í sitt horn. Ef hákarlinn nær dýri þá breytist það í hákarl og aðstoðar í næstu umferð. Leikurinn endar þegar allir eru orðnir hákarlar. Útfærsla: Stjórnandi getur útfært leikinn eftir aldri og getu barnanna. • Hákarlinn má kalla „fiskisúpa“ en þá eiga öll dýrin að byrja að hlaupa í kringum hann á sama tíma. • Útfæra má leikinn á ýmsan hátt og eftir því hvað börnin eru að læra í skólanum á hverjum tíma. Til dæmis nota fuglategundir, hitabeltisdýr eða húsdýr. • Leika má hreyfingar dýranna, það er gott fyrir hreyfifærni þeirra en þá er ágætt að hafa hlaupasvæðið minna því könguló kemst ekki jafn hratt yfir og ljón.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=