Láki Máni og þjófahyskið

Til kennara og foreldra! Í Smábókaflokki Menntamálastofnunar eru bækur sem ætlað er að vekja lestraráhuga yngstu barnanna og veita þeim þjálfun í lestri. Leitast er við að höfða til ólíkra áhugasviða með texta sem er innihaldsríkur þrátt fyrir einfalda framsetningu. Lögð er áhersla á að sögurnar höfði jafnt til tilfinninga og rökhugsunar og ekki síst kímnigáfu lesenda. Bækurnar eru allar 24 blaðsíður og því auðvelt að ljúka við lestur bókar. Á vefsíðunni Íslenska fyrir yngsta stig – Veftorg eru fjölbreyttar kennsluhugmyndir og verkefni til að prenta út. Nokkrir gagnvirkir vefir fylgja einnig bókunum: Lesum og skoðum orð – Smábækur , Smábókaskápurinn og Orðaleikir . Áður en bókin er lesin Áður en lestur hefst ættu nemendur að skoða bókina, ræða um hana og kynna sér • hver er höfundur hennar • hver hefur teiknað myndirnar • hvað bókin heitir, þ.e. titill • um hvað hún fjallar Einnig ættu nemendur að skoða vel myndirnar og gera sér í hugarlund hvað gerist í sögunni, hvar hún fer fram, hver atburðarásin er, hvaða persónur sjást á myndunum o.s.frv. Umræðuefni heima og í skólanum Ólíkar kynslóðir. Hverjir búa á Sómalæk sjö? Á hvern hátt koma ólíkar þarfir íbúanna fram? Hvernig eru áhugamál þeirra lík og ólík? Hvað eiga kynslóðirnar sameiginlegt? Samskipti. Hvernig eru samskiptin á milli Láka og systranna? Hvernig reynslu hafa nemendur af samskiptum við systkini? Hver er munurinn á að fá að láni og taka án leyfis. Vinir. Vinir geta verið bæði sýnilegir og ósýnilegir. Hvað er að eiga ósýnilega vini? Hvernig er hægt að leika sér við ósýnilega vini? Frásögn og ritun • Skoðaðu dagblöð og klipptu út þrjár myndir af áhugaverðum fótboltaleikmönnum. Útskýrðu af hverju þér finnst þeir áhugaverðir. • Teiknaðu hring á blað og skrifaðu orðið fótbolti í hringinn. Skrifaðu eða teiknaðu svo allt sem þú veist um fótbolta í kringum hringinn. • Skiptu blaði í tvo dálka. Efst í annan dálkinn skaltu skrifa Góð samskipti og í hinn Ekki góð samskipti . Skrifaðu í dálkana fyrir neðan dæmi um það sem þér finnst vera góð samskipti og ekki góð. • Segðu vini eða vinkonu um hvað sagan er. Þú skalt undirbúa þig vel og hugsa um hvað þú ætlar að segja fyrst, hvað næst og hvernig þú ætlar að enda frásögnina.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=