40740 Kynþroskaárin – Kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 4 Inngangur Kynþroski er tími breytinga, líkaminn breytist sem og tilfinningar okkar. Þá taka samskipti og sambönd okkar við aðra líka breytingum. Þetta tímabil reynir stundum á unglinginn og nánasta umhverfi hans. Undirbúa þarf barnið vel undir unglingsárin. Það er mikilvægt að byrja snemma að kenna börnum grundvallarhugtök um samskipti og kynverund áður en hinn eiginlegi kynþroski hefst. Það auðveldar allt lærdómsferlið, sérstaklega þegar um ræðir börn og ungmenni sem þurfa aðlagað námsefni. Kynfræðslu hefur verið ábótavant fyrir þennan hóp barna og unglinga. Þá hefur verið ákall frá þeim sem sinnt hafa þessari fræðslu að fá einfalt kennsluefni sem nýtist þessum nemendahópi, sem á oft erfitt með að tileinka sér námsefni sem jafnaldrar þeirra sem fylgja dæmigerðum þroska, fara í gegnum (Hartman, 2014). Rannsóknir styðja þessa sýn, kennsluefnið þarf að vera einfalt til að það gagnist og fræðslan á formi sem hver og einn nemandi getur tileinkað sér (Curtis, 2017; MacKenzie, 2018). Samfélög gera kröfur um að fólk þekki óskrifaðar reglur um hegðun, samanber að geta gert greinamun á hvaða hegðun má eingöngu viðhafa í einkarými en ekki á almannafæri. Eftir því sem við eldumst breytast kröfur samfélagsins til okkar, unglingurinn þarf að læra inn á hvernig á að stjórna nýjum hvötum og tilfinningum sem fylgja oft kynþroskanum, þess vegna er kynfræðsla og félagsfærniþjálfun lykilatriði. Þessar kröfur um breytta hegðun gerast ekki alltaf sjálfkrafa eins og hjá jafnöldrunum sem fylgja dæmigerðum þroska (Beddows & Brooks, 2016). Kynfræðsla og félagsfærniþjálfun leggja grunninn að bættu kynheilbrigði og lífsgæðum á fullorðinsaldri. Þessi fræðsla og þjálfun hefur einnig forvarnargildi og geta dregið úr líkum á kynferðislegu ofbeldi. Rannsóknir sýna að þessi börn eru mun líklegri til að verða fyrir kynferðislegri misnotkun en jafnaldrar þeirra sem fylgja dæmigerðum þroska (Curtis, 2017; Urbano et al. 2013). Mörk í samskiptum eru okkur öllum mikilvæg. Börn og ungmenni sem skilja heilbrigð mörk eru líklegri til að þróa færni til sjálfshjálpar og einstaklingsbundinnar ábyrgðar sem leiðir af sér meiri sjálfsstjórn og ábyrgð á gjörðum sínum. Í kjölfarið eiga þau betra með að sýna öðrum virðingu og þróa með sér sínar eigin persónulegu öryggisreglur í samskiptum við annað fólk. Við þurfum að byrja snemma að gefa jákvæð skilaboð í tengslum við kynhegðun og kynhneigð. Það hjálpar einstaklingnum að þróa með sér jákvæða sýn á sjálf sig sem kynvera, byggja upp sjálfstraust og sjálfsþekkingu, forðast hugsanlegar hættur fyrir sig og aðra og leita eftir vellíðan sem best uppfyllir þarfir og langanir. Hvernig kennum við börnum með þroskafrávik að setja sjálfum sér heilbrigð mörk og skilja mörk annarra í samskiptum? Hvað samþykki felur í sér? Fyrsta skrefið er að geta gert greinarmun á og skilgreint eftirfarandi: a) Einkarými og almannafæri (fela í sér rými samanber ólíkar tegundir af herbergjum á heimilum eða staðir á almannafæri sem við deilum venjulega með öðru fólki, eins og til dæmis verslunarmiðstöðvar, almennings- garðar, strætisvagnar o.fl.). Hugtökin einkarými og almannafæri eru oft misskilin þegar rætt er um mörk og mikilvægt er að skilja þennan mun vel til að átta sig á hvað mörk á þessum stöðum fela í sér. b) Umræðuefni eru allskonar og það er stundum auðvelt fyrir fólk að þoka línum þegar það deilir upplýsingum eða persónulegum upplýsingum. Eitthvað sem er opinbert er til dæmis auðvelt að deila á almannafæri svo sem í sundlauginni eða á bókasafninu. Einkamálum deilum við ekki, við höldum persónulegum upplýsingum og upplýsingum um líkamann fyrir okkur sjálf. c) Snerting getur verið góð, ruglandi eða beinlínis vond og það er mikilvægt að geta skilgreint þennan mun og vita hvernig megi bregðast við þegar upplifun okkar af snertingunni er ruglandi eða vond, hvað á að segja og hvert má leita eftir aðstoð. Þá getur snerting verið mjög ólík á meðal fjölskyldna. Sumar fjölskyldur snertast mikið á meðan aðrar snertast lítið. Þá er skynjun okkar oft ólík, sumir hafa þörf fyrir mikla snertingu á meðan aðrir forðast hana. Það er mikilvægt að leiðbeina einstaklingum sem eru til dæmis sólgnir í ákveðna tegund snertingar sem öðrum kann að finnast óþægileg. Barnið þarf að læra hvar mörkin liggja þegar kemur að snertingu. Það er mikilvægt að læra hvernig er viðeigandi að snerta aðra og þá hvar og hvernig. Þá er snerting er ólík eftir því hvernig við tengjumst fólki. d) Sambönd. Við tengjumst fólki með ólíkum hætti. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvers konar samband er um að ræða við fólk sem við eigum í samskiptum við, til dæmis hverja við föðmum og hverja ekki. Góð leið til að átta sig á ólíkum samböndum er að læra um sambandshringinn í kafla 6 hér á eftir. Snerting innan fjölskyldu og á meðal kunningja, aðstoðarmanna og vina er ólík. Fólk hefur líka mismunandi reglur í tengslum við snertingu og sitt persónulega rými. Sum snerting er í lagi á milli ákveðinna hópa
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=