40740 Kynþroskaárin – Kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 20 Verkefni 5 Klæðnaður í samræmi við athafnir og veður Aðföng • Notið myndir af neti eða úr tímaritum af mismunandi fatnaði og árstíðum. Aðferð Ræðið: Af hverju erum við í fötum? (Til að hylja líkamann, til að tjá okkur fyrir ákveðna vinnu eða athafnir, til að okkur sé hlýtt og við séum þurr). Sýnið ef til vill myndir af mismunandi veðri: Vor, sumar, vetur og haust (rigning, snjór, rok og sól) og hvernig fólk klæðir sig í samræmi við veður. Sýnið hvernig fólk klæðist mismunandi fatnaði í tengslum við hvað það er að gera; sund, leikfimi, hlaup, fjallganga. Ræðið af hverju við erum í undirfötum – hvað eiga þau að hylja? Verkefni 6 Hvaða föt eru við hæfi? Aðföng • Notið myndir af netinu eða úr tímaritum sem sýna hvernig við klæðumst við ólík tilefni. Aðferð Það er mismunandi hvaða fatnaður hentar hverju sinni og er þægilegur. Þegar við hreyfum okkur notum við fatnað sem er þægilegt að hreyfa sig í eins og einhvers konar íþróttaföt. Stundum klæðumst við fínum fötum við ákveðin tilefni og erum þá ekki í sama fatnaði og þegar við förum í vinnu eða skóla. Verkefni 7 Umræðuefni: Sumt er einkamál annað ekki bls. 61 Aðföng • Verkefni 3 • Kennaratyggjó Aðferð Ræðið að sumt umræðuefni á heima í einkarými á meðan annað umræðuefni má ræða á almannafæri. Sumt er einkamál sem aðrir þurfa og eiga ekki að vita og á betur við að ræða um þegar við erum ekki þar sem margir geta heyrt um hvað við erum að tala. Spyrjið hvort einhver kannist við orðið einkamál? Útskýrið hvað orðið einkamál þýðir: • Einkamál er eitthvað sem er persónulegt og við viljum ekki að aðrir heyri nema manneskja sem við treystum vel. Einkamál getur líka verið ákveðin hegðun eins og til dæmis þegar við förum á snyrtinguna þá lokum við hurðinni til þess að aðrir komi ekki og trufli eða sjái okkur. Sumt umræðuefni er persónulegt á meðan annað umræðuefni er ópersónulegt. Persónulegt umræði er oftast einkamál eða eitthvað sem maður vill ekki að allir heyri eða viti um. • Flokkið setningarnar í verkefni 3 í tvo dálka annars vegar það sem er ópersónulegt og er í lagi að ræða um á almannafæri og hins vegar það sem er persónulegt og á eingöngu heima í einkarými eða þar sem hægt er að vera í næði.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=