Kynlíf - Strákar

Getnaðarvarnir 59 Neyðargetnaðarvörnin Getur komið til bjargar ef smokkurinn hefur rifnað eða ef óvarðar samfarir hafa átt sér stað. Neyðargetnaðarvörnin er hormónalyf sem hindrar egglos og breytir slímhúð legsins þannig að eggið nær ekki að festast. Ef rétt er að farið er lítil hætta á þungun en talað er um 96% öryggi. Þú getur nálgast neyðargetnaðarvörnina í apóteki án lyfseðils en það er æski- legt að leita til hjúkrunarfræðings á heilsugæslunni eða í skólanum eða til foreldra og fá aðstoð í þessari klípu. Dæmisaga Sigurjón sat álútur í rúminu og dró af sér smokkinn í rólegheitum. En hvað var þetta … smokkurinn var rifinn. Það lak úr honum. Sigurjón horfði agndofa á rifinn smokkinn. Andrea lá hin rólegasta við hliðina á honum. Hvað átti hann að gera? Hann vissi ekki hvort smokkurinn hafði verið rifinn allan tímann, hvort sæðið hefði sloppið í gegnum rifuna? Jú, auðvitað hafði það gert það en það var samt ekkert víst að það gerði neitt til. Eða hvað? Átti hann að þegja og taka sjénsinn á að allt væri í lagi? Hvað ef Andrea kæmi til hans alveg brjáluð eftir mánuð og segðist vera ólétt? Dæmisaga Það var laugardagsmorgunn. Sigrún lá í rúminu sínu með hjartslátt og spennu í maganum. Hún heyrði í liðinu frammi. Sigrún var ekki tilbúin til að horfast í augu við daginn. Hún velti sér á grúfu og kreisti aftur augun. Hún hafði sama og ekkert sofið. Hafði velt sér í rúminu og reynt að forðast óttann sem læddist aftan að henni. Hún hafði ekkert komið seint heim. Hafði drifið sig heim þegar hún áttaði sig á stöðunni sem hún var lent í. Partýið hjá Önnu Láru hafði verið fint. Þau Raggi mættu saman. Þau voru búin að vera að deita í nokkrar vikur og það var gaman að vera „par“. Þau keluðu soldið og dönsuðu þegar leið á kvöldið og allt í einu voru þau komin inn á klósett. Það var ótrúlega spennandi og þau kysstust og snertust innilega og Raggi var með hann grjótharðan. Hana langaði að prófa að fá hann inn í sig … bara aðeins. Raggi var svo ljúfur og varkár og þau horfðust í augu … en svo var eins og hann missti það bara. Hún áttaði sig þegar hún sá skelfingarsvipinn á honum … hann var of seinn að kippa honum út og allt gumsið sprautaðist inn í hana. Hún trylltist! Þegar hún kom heim fór hún í sturtu. Hún reyndi að skola leggöngin. Hún hágrét … hún var ógeðslega reið út í Ragga … hafði hann enga stjórn á sér? Svo sat hún uppi með vandann. Hvað gat hún gert? Óvarðar samfarir eða smokkurinn brast – HJÁLP! Neyðargetnaðarvörnina þarf að taka inn innan 72 klukkustunda frá samförunum og þá eru teknar tvær töflur. Neyðargetnaðarvörnin getur brugðist og óæskileg þungun átt sér stað. Þungunarpróf Þungunarpróf fást í apótekum og eru einföld í notkun. Yfirleitt þarf að gera þungunarpróf á morgnana og nota fyrstu þvagbunu dagsins. Ótímabær þungun Ef þú reynist vera þunguð ertu lent í mjög flókinni stöðu. Þú getur íhugað aðstæður þínar í nokkra daga og borið þig upp við vinkonur þínar en á endanum verðurðu að ráðfæra þig við foreldra þína eða einhvern annan fullorðinn sem þú treystir. Möguleikarnir í stöðunni eru tveir: Þú getur ákveðið að fara í fóstureyðingu eða valið að ganga með barnið. Er ég ólétt? Þessi spurning á ekki að þurfa að koma upp hjá ungum stúlkum … en það gerist samt ótrúlega oft. Geturðu ímyndað þér skelfing- una? Sérðu fyrir þér 14 ára stelpuskott með barn í maganum. ER ÉG ÓLÉTT?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=