8 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 3–17 Kynning Í kaflanum eru persónur bókarinnar kynntar og smám saman komumst við í kynni við hvert barn. Þá öðlast nemendur betri skilning á sjálfum sér og samnemendum sínum við þá vinnu sem fer í hönd. Bakgrunnur persónanna Höfundur valdi nöfnin þannig að þau endurspegluðu bakgrunn hverrar persónu. Það birtist ekki alltaf í sögunni sjálfri en kemur fram hér að neðan. Mía Mía er fædd í Kína og ættleidd af tveimur samkynhneigðum mönnum. Þeir völdu nafn fyrir hana sem var bæði kunnuglegt og auðvelt að bera fram fyrir þeirra samfélag en líka nafn sem er dálítið einstakt. Nafnið er kunnuglegt en ekki eitt af algengustu nöfnunum. Kári Kári á mörg systkini og hann er hluti af lýðfræðilegum meirihluta þar sem hann býr sem á síður við um hinar persónurnar. Ómar Ómar er fæddur á Íslandi en fjölskylda hans er frá Pakistan. Þau eru ekki mjög trúuð hversdags en hefðir og fjölskylda eru mikilvægar fyrir þeim. Nafnið Ómar er hefðbundið og algengt strákanafn í þeirra samfélagi. Aló Aló er sú persóna sem er mest flæðandi og ber nafn sem er fremur óalgengt. Í bókinni er það aldrei staðfest hvert úthlutað kyn og kynvitund Alós er og hvaða fornafn Aló vill nota. Í einni myndasögunni sjáum við Aló verða vitni að því að strák er sagt að hann geti ekki verið í bleiku og síðar segir Aló mömmu sinni að Aló haldi upp á bleikan lit. Þetta gæti valdið því að lesendur geri ráð fyrir að Aló hafi verið úthlutað karlkyni við fæðingu og sé strákur en það er ekki ljóst. Höfundinum finnst líklegast að Aló sé með flæðandi kynvitund (Aló gæti e.t.v. viljað nota orðin kynsegin eða flæðigerva en við vitum það ekki fyrir víst og ekki öruggt að Aló viti það heldur). En þegar sagan hefst er Aló að byrja að spyrja sig hvar Aló passar inn í hvað varðar kyn. Aló ber þess vegna nafn sem við upplifum að gæti verið strákur, stelpa, hvort tveggja eða þarna á milli. Í þessari lýsingu eru engin fornöfn notuð yfir Aló þar sem það er sú leið sem höfundurinn fer. Sum okkar kjósum að nafn okkar sé ávallt notað í stað fornafns, önnur vilja nota fornafn. Við vitum ekki hvaða fornafn Aló myndi kjósa og því færi líklega best á að nota alltaf nafnið Aló í stað fornafns þegar talað er um Aló. Fróðleikur Hugtakið kynlíf er samsett úr orðunum kyn og líf. Kynlíf nær því utan um allt það sem viðkemur lífi okkar sem kynvera. Verðandi foreldrar fá nánast án undantekningar spurninguna um hvort þau viti hvort kynið barnið sé. Um leið og líffræðilegt kyn er vitað gerir samfélagið ákveðnar væntingar um kyngervi barnsins, markaðsráðandi öfl senda oft þau skilaboð að bleikt sé fyrir líffræðilegar stúlkur og blátt fyrir líffræðilega stráka, að strákar séu vísindalega þenkjandi á meðan stúlkur séu félagslega þenkjandi. Þegar við upplifum að við pössum ekki inn í þann ramma sem samfélagið hefur sett fram (hið samfélagslega kyn; kyngervi), þá getur einstaklingurinn upplifað vanmátt og kvíða. Þessi kafli er kynning á því að kynlíf, þ.e. líf okkar sem kynvera, er ekki einhliða, heldur einstaklega margþætt!
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=