Kyn, kynlíf og allt hitt - kennsluleiðbeiningar

7 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Náttúrugreinar Við lok 4. bekkjar getur nemandi … • hlustað á og rætt hugmyndir annarra. • útskýrt á einfaldan hátt hvernig barn verður til og þekkir einkastaði líkamans. Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • hlustað á, metið og rætt hugmyndir annarra. • lýst breytingum sem verða við kynþroskaaldur og gert sér grein fyrir mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum kynjanna. Kennsluaðferðir sem henta efninu Í kennsluleiðbeiningunum er stungið upp á fjölmörgum kennsluaðferðum og oft bent á fleiri en eina útfærslu á verkefnum. Unnið er með umræðu- og spurnaraðferðir, samvinnunám, vinnublöð, beina kennslu (t.d. sýnikennslu, myndmiðla og hlustunarefni), hlutverkaleiki, ýmiss konar leitaraðferðir (t.d. viðtöl við aðra, efnis- og heimildarleit og gagnaöflun og greiningu), þrautalausnir og ýmiss konar tjáningaraðferðir á borð við myndsköpun, leikræna tjáningu, tónlist/söng og skriflega tjáningu. Sum verkefni henta vel til samþættingar við aðrar námsgreinar og þá er hægt að sækja í enn fleiri kennsluaðferðir, til að mynda sýnikennslu, spurningalistakannanir og fleira. Það liggur í fagmennsku hvers kennara hvernig efnið er unnið og tekið áfram með nemendum. Hugmyndir að námsmati Mikilvægt er að námsmat sé fjölbreytt og greinandi. Námsmat ætti að vera til þess fallið að leiðbeina nemendum áfram í námi sínu, hjálpa þeim að átta sig á eigin styrk- og veikleikum ásamt því að styðja þau í að setja eigin markmið til bætingar. Í efni sem þessu er enn fremur einstaklega mikilvægt að námsmat sé til þess fallið að styrkja sjálfsmynd nemenda og bæði styðja og stuðla að sjálfstæði þeirra. Lagt er upp með ýmiss konar vinnu og því kjörið að safna efninu saman í verkmöppu og hafa jafningjamat og sjálfsmat með reglulegu millibili, sjá dæmi á bls. 69–74. Leiðsagnarmat, umræður og nýting matskvarða við kynningar og önnur skilaverkefni eru tilvalin fyrir fjölbreytt námsmat og fara eftir aldri nemenda. Ekki er lagt til að það sé eitthvert eitt lokamat, heldur ætti námsmat að vera í formi símats. Áður en hafist er handa við að vinna með efnið er gott að kennari kanni forhugmyndir nemenda, með því á ákveðið stöðumat sér stað. Það gefur kennaranum tækifæri til að laga kennslu sína að stöðu og þörfum nemenda. Heimildir: Baier, A. (1986). Trust and antitrust. Ethics, 96(2), 231–260. Dweck, C. S. (2017). Mindset. Changing the way you think to fulfil your potential (uppfærð útgáfa). London: Robinson. Katz, M. S. (2014). The role of trustworthiness in teaching. Studies in Philosophy and Education, 33, 621-633.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=