Kyn, kynlíf og allt hitt - kennsluleiðbeiningar

4 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Til kennara Almennt Bókin Kyn, kynlíf og allt hitt hvetur nemendur til að hlúa að eigin sjálfi, bæði andlega og líkamlega, ásamt því að fræða um þau málefni sem falla undir kynin og líf okkar sem kynveru. Líf okkar sem kynvera hefst um leið og við fæðumst þar sem okkur er úthlutað okkar líffræðilega kyni. Hvað felst í því hefur þegar verið skilgreint af því samfélagi og þeim menningarheimi sem við fæðumst inn í. Þetta er verulega víðfemt viðfangsefni og því ekki hægt að einskorða sig við eina grein innan aðalnámskrár grunnskóla heldur komum við inn á margvíslegar greinar, þ.á m. lykilhæfnina og samfélags-, náttúru- og íþróttagreinar. Bókin skoðar þetta með eins hlutlausum hætti og mögulegt er ásamt því að hvetja nemendur til að hugsa gagnrýnið um þau skilaboð sem samfélagið sendir okkur stöðugt. Þetta er mikilvægt málefni sem þú, kæri kennari, ert að leggja af stað í og í sumum tilfellum getur það reynst viðkvæmt og erfitt. Af þeim sökum er einstaklega dýrmætt að skapa öruggt námsumhverfi þar sem nemandinn skynjar bæði traust og umhyggju. Umhyggja felur í sér að öllum er tekið eins þau eru, án þess að vera dæmd, að vera til staðar fyrir þau ásamt því að styðja hvert og eitt þeirra í því að verða sú persóna sem sóst er eftir að vera. Þegar barn á í hlut felur umhyggja einnig í sér að það sé stutt í að taka eigin ákvarðanir (Katz, 2014). Bekkjarandinn (e. class culture) ætti í raun að einkennast af umhyggju, enda er enska orðið culture dregið af latneska orðinu cultus sem þýðir einmitt umhyggja. Í námsefni sem þessu er nauðsynlegt að skapa aðstæður til trausts og umhyggju innan skólastofunnar og því skaltu hafa í huga að sýna öllum spurningum skilning og svara öllu á sama yfirvegaða hátt (nota „veðurfréttaröddina“), til að gefa það skýrt til kynna að engin spurning sé skrýtin eða asnaleg. Hugmyndafræði og uppbygging efnisins Frumútgáfa bókarinnar nefnist Sex is a funny word þar sem höfundi finnst nauðsynlegt að afnema það tabú sem fylgir orðinu og geta leikið sér með það. Á íslensku er í raun ekki alveg sami leikur í orðinu en orðin sem nýtt eru í íslenska titilinn geta hins vegar verið gildishlaðin í huga nemendanna og mikilvægt að vinna með þann skilning og þær hugmyndir sem þar búa að baki. Höfundurinn skrifaði þessa bók fyrir börn á aldrinum 7–10 ára og af þeim sökum tekur bókin ekki málefni eins og kynþroska eða samfélagsmiðla föstum tökum. Hán skrifaði bókina þar sem háni fannst vanta kynfræðslutengt efni fyrir þennan aldurshóp, þ.e. eftir að búið er að kenna um hvernig börnin verða til og áður en byrjað er að fjalla um kynþroskann. Sama á við hér, Menntamálastofnun er með á boðstólnum námsefnið Komdu og skoðaðu líkamann og Halló heimur 1 sem fjalla meðal annars um hvaðan við komum og námsefni um kynþroskann ætlað 5.–7. bekk. Það er efni eins og Kynfræðsluvefurinn, Ég og sjálfsmyndin og Maðurinn – Hugur og heilsa. Þarna á milli er tilvalið að fræða um kyn, kynlíf og allt hitt. Bókin hefur að geyma 6 kafla og eru sumir hverjir með nokkra undirkafla. Efnið er hægt að kenna sem heild en einnig í bútum þegar tækifæri gefast í kennslunni þar sem að hver kafli getur í raun staðið sem sjálfstæð eining. Það er í þínum höndum að meta hvað hentar þínum nemendahópi best. Einnig að velja og hafna, breyta og/eða bæta við efnið og fylgja þannig þinni fagmennsku sem kennari. Kennsluleiðbeiningarnar hafa að geyma ýmiss konar verkefni: skapandi-, samþættingar-, umræðu- og samvinnuverkefni svo eitthvað sé nefnt. Aftast eru fylgiskjöl við ýmis verkefni, hugtakaskrá og aukaleg skjöl. Tengsl við aðalnámskrá grunnskóla Kennsluleiðbeiningarnar taka mið af hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla frá 2011/2013 og grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Lykilhæfninni er fléttað inn í efnið þar sem það hentar hverju sinni, þ.e. tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=