Kyn, kynlíf og allt hitt - kennsluleiðbeiningar

33 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Mælt er með ... Viljir þú sem kennari afla þér nánari upplýsingar þá er gott að skoða Skilgreininga- og flokkunarkerfi (SOF) útgáfa 3 ásamt því að skoða Verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsmanna leik- og grunnskóla. Bæði skjölin má finna hér. Ef þú ert ekki með það á hreinu hvernig verklag í kringum grun á kynferðislegu ofbeldi er innan þinnar skólastofnunar, er gott að kynna sér það áður en farið er í kaflann. Því ef svo ber við að nemandi leiti til þín í kjölfar fræðslunnar eða láti í ljós hluti sem þyrftu ef til vill nánari skoðun, þá er gott að vera með verklagið og verkferlana á hreinu. Eftirfarandi slóð gefur góða mynd af því hvað telst eðlileg kynhegðun hjá börnum á hverju aldursskeiði fyrir sig. Bls. 92–97 Töfrasnerting Með töfrasnertingu er átt við þá snertingu sem breytir líðan okkar, sem getur gert erfiðan dag aðeins auðveldari, til dæmis knús. Einnig er til snerting sem getur verið meiðandi og stundum getum við upplifað eins snertingu á mismunandi hátt. Þessi kafli er ákveðinn inngangur inn í þá kafla sem fylgja á eftir. Kveikja Á YouTube má finna zumba myndbönd við lagið Up eftir INNA. Í viðlaginu segir söngkonan að ákveðinn einstaklingur getur látið henni líða betur með snertingu sem hún kallar magic touch. Líkt og töfrasnerting ýtir undir vellíðan, þá gerir hreyfing og dans það sömuleiðis. Því er hvatt til þess að nemendur standi upp, læri dansinn eða dansi frjálst við lagið og upplifi þannig vellíðan í gegnum hreyfingu. Ræðið í lokin hvað hún meinar með magic touch eða töfrasnertingu. Hvernig getur einhver látið okkur líða betur með því að snerta okkur? Nýtið annað hvort myndbandið til að læra dansinn, ef ekki allan dansinn þá bara við viðlagið sjálft. Hér eru tvær útgáfur af zumba dansi, sú fyrri er aðeins styttri og flóknari en sú seinni. INNA – Up frá DwikyDanceFitSwag. INNA – Up frá Happy Zumba Jun‘s. Bls. 94–95 Umræðupunktar • Hvaða snerting er töfrasnerting fyrir ykkur? • Eru allir sammála um hvers kyns snerting er töfrasnerting? o skiptir máli frá hverjum snerting er? Er til dæmis knús frá foreldri meiri töfrasnerting en knús frá frænku/frænda? • Hvaða snerting gæti látið okkur líða illa eða meitt okkur? Bls. 96 Verkefni – Aðstæður snertinga Í verkefninu Aðstæður snertinga, sjá fylgiskjal bls. 61, eru mismunandi aðstæður sem hægt er að lenda í. Nemendur skiptast á að leika mismunandi aðstæður, tvö og tvö í einu. Áður en nemendur eru settir í aðstæðurnar er mikilvægt að kennari sýni hvernig neita má og samþykkja snertingu. Kennari fær þá sjálfboðaliða til að spyrja hvort snerta megi kennarann. Í lok hvers hlutverkaleiks er mikilvægt að samnemendur gefi leikurunum hrós fyrir frammistöðu sína og gefi jafnvel endurgjöf.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=