Kyn, kynlíf og allt hitt - kennsluleiðbeiningar

28 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 74–79 Það sem þau kölluðu þig þegar þú fæddist Um leið og einstaklingur verður til sem fóstur er fólk farið að spyrja hvors kyns við erum, það er tilkynnt um leið og við fæðumst og sömuleiðis eru kynjaðar hugmyndir settar fram (t.d. bleikt eða blátt). Kveikja Lesið saman blaðsíður 74–75 og takið eftirfarandi umræður með nemendum: • Af hverju vill fólk vita hvort barnið sem er að fara að fæðast sé strákur eða stelpa? Skiptir það máli? • Á bls. 74, rammi 3, er mamman spurð „Bleikt eða blátt“ og bent er á magann á henni. Hvað er átt við með því? o Hver ákvað eiginlega að bleikt væri fyrir stelpur og blátt fyrir stráka? o Geta litirnir verið bæði fyrir stráka og stelpur? • Kári segir að hann voni bara að þetta sé barn. Af hverju haldið þið að hann sé ekkert að pæla í því hvort barnið sé stelpa eða strákur? o Þau sem eiga lítið systkini, munið þið hvort kynið hafi skipt ykkur máli? (Af hverju skipti þetta ykkur máli/ekki máli?) Bls. 77–79 Verkefni – Þegar ég fæddist Hér er verkefni sem krefst samvinnu milli heimilis og skóla. Afhendið nemendum verkefnið Þegar ég fæddist eða sendið það í tölvupósti til forsjáraðila og biðjið þau um að leysa verkefnið með börnunum. Nemendur vinna síðan úr upplýsingum og útbúa veggspjald um sig sjálf. Þau setja mynd af sér á miðju spjaldsins. Í kringum myndina setja þau upplýsingarnar sem þau fengu að heiman og í lokin skreyta þau spjaldið. Leggðu síðan eftirfarandi spurningar fyrir nemendur og fáðu þau til að rétta upp hendur. Gefðu einnig rými fyrir umræður. Tilgangurinn með umræðunum er að fá nemendur til að átta sig á að þegar við fæðumst erum við öll eins, fyrir utan kynfæri okkar, og við sjálf höfum engar kynjaðar hugmyndir við fæðingu – þær koma frá samfélaginu eftir því sem við eldumst. • Hve mörg ykkar eigið foreldra sem vissu hvaða líffræðilega kyn þið voruð áður en þið fæddust? • Hver ykkar fæddist fyrir hádegi? En eftir hádegi? • Hversu mörg ykkar voru með tíu fingur þegar þið fæddust? • Hversu mörg ykkar voru með tvö augu þegar þið fæddust? • Hversu mörg ykkar hugsuðuð að þið elskuðuð bleikan eða bláan um leið og þið fæddust? • Hversu mörg ykkar voru með tvo fætur þegar þið fæddust? • Hversu mörg ykkar fæddust allsber? Áhugaverðir tenglar Grein á Vísindavefnum: Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=