Kyn, kynlíf og allt hitt - kennsluleiðbeiningar

17 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 LÆRUM UM LÍKAMA Kaflinn fjallar um að líkamar eru ólíkir og öll megum við vera eins og við erum. Ekkert eitt útlit er rétt. Flest erum við forvitin um eigin líkama og líka annarra. Farið er í uppbyggingu æxlunarfæranna ásamt því að skoða fleiri líffæri sem tengjast kyneinkennum og kynímynd. Fróðleikur Í kaflanum er fjallað um líkama, nekt, kynfæri og heiti kynfæra. Í kaflanum er sérstaklega tekið fram að ekki er talað um kynfæri, sem einkastaði heldur er allur líkaminn okkar einkasvæði. Þessi skilgreining leggur enn frekar grunninn að því að nemendur standi vörð um eigin mörk, hvaða snertingu þau velja og vilja og þá vitneskju að þau ein eigi sinn líkama. Komið er inn á nekt og klæðnað í þessum kafla. Hér gefst kjörið tækifæri til að ræða mismunandi menningarheima og hefðir. Við getum nýtt klæðnað til að skilgreina okkur eða koma einhverjum skilaboðum áleiðis en klæðnaður er einnig mismunandi eftir menningarheimum og það geta verið margir menningarheimar innan samfélagsins. Það sem telst eðlilegt í okkar huga telst það ef til vill ekki í öðrum menningarheimum og því er mikilvægt að bera virðingu fyrir margbreytileikanum í klæðnaði. Sért þú að kenna þetta efni á miðstigi, þá er vert að nefna að þessi kafli tekur ekki fyrir hvað felst í kynþroska en það er nefnt að líkami okkar tekur breytingum yfir æviskeið okkar. Viljir þú sem kennari taka sérstaklega fyrir kynþroska, þá er mælt með að nýta sér efnið úr Ég og sjálfsmyndin, þar er góður kafli sem tekur fyrir kynþroskann og þær líkamlegu breytingar sem eiga sér stað yfir þann tíma. Mikilvægt er að hafa nemendahópinn til hliðsjónar þar sem sumir hópar eru komnir langt í vangaveltum um kynþroska og áhrif hans og því mis- áríðandi að taka málefni kynþroskans fyrir eftir hópum. Hugtök Kynþroski/kynþroskaskeið er tímabil þegar líkami einstaklinga tekur miklum breytingum á tiltölulega stuttum tíma, bæði sálfræðilega og líkamlega. Kynþroski á sér stað á nokkrum árum en getur hafist á mjög misjöfnum tíma, allt eftir einstaklingnum. Kynþroski getur hafist á aldrinum 8 til 18 ára. Það getur reynst börnum erfitt að byrja snemma á kynþroskaskeiðinu og einnig seint miðað við aldurshópinn. Þá skiptir máli að muna að við erum öll ólík og misjafnlega fljót að taka út þroska. Næði er stund sem við eigum í algjörum friði og án truflana frá öðru áreiti. Einkamál eru persónuleg málefni, í sumum tilfellum viðkvæm málefni, sem tengjast einstaklingnum sjálfum og kemur ekki öðrum við. Við ráðum yfir okkar einkamálum og hvort (og þá með hverjum) við deilum slíkum málum. Kynfæri er hugtak sem, í fræðilegu tali, nær yfir þau líffæri sem annast æxlun, þ.e. typpi, eistu og pung annars vegar og píku, leg og eggjastokka hins vegar. Stundum fer það eftir einstaklingnum sjálfum hvað hugtakið kynfæri felur í sér. Menningarheimur er stórt samfélag þar sem ákveðin menning og hefðir eru ríkjandi og einkenna það samfélag. Þó svo að fólk flytjist á milli menningarheima getur það enn þá tilheyrt sínum upprunalega menningarheimi í nýju landi þar sem er allt annar menningarheimur. Hægt er að tilheyra fleiri en einum menningarheimi. Intersex er hugtak sem nær yfir nokkuð breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum sem tilheyra bæði karl- og kvenkyni. Intersex eiginleikar geta verið sjáanlegir strax við fæðingu en stundum koma eiginleikarnir ekki í ljós fyrr en þegar einstaklingurinn byrjar kynþroska, reynir að eignast barn með öðrum einstaklingi eða fyrir einskæra tilviljun. Þetta er því fremur víðfeðmt hugtak. Bls. 32–71

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=