kennsluleiDbeiningar 17 Bls. 156 Bls. 18 Bls. 32 Bls. 72 Bls. 90 Bls. 116 Bls. 132 efnisyfirlit Lærum Tölum líkama snerting Kynning velkomin er um kynlíf? Hvad Strákar, stelpur og vid öll um kynlíf Hrifning, ást og sambönd Hvad er næst? 16
2 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Kyn, kynlíf og allt hitt - Kennsluleiðbeiningar Verknúmer: 40711 ISBN 978-9979-0-2831-4 © 2023 Hilja Guðmundsdóttir Ritstjórar: Harpa Pálmadóttir og Sigrún Sóley Jökulsdóttir Málfarslestur: Ingólfur Steinsson Faglegur yfirlestur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir Menntamálastofnun Kópavogur Allur réttur áskilinn Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun
3 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 TIL KENNARA 4 Almennt 4 Hugmyndafræði og uppbygging efnisins 4 Tengsl við aðalnámskrá grunnskóla 4 Skólaíþróttir 5 Samfélagsgreinar 5 Félagsheimur 6 Náttúrugreinar 7 Kennsluaðferðir sem henta efninu 7 Hugmyndir að námsmati 7 KYNNING 8 Hugtök 9 Verkefni – Forhugmyndir og forþekking 9 Verkefni – Skoðanakönnun 10 HVAÐ ER KYNLÍF? 12 Hugtök 12 Verkefni – Æxlun 14 Verkefni – Virðing | Traust | Gleði | Réttlæti 15 LÆRUM UM LÍKAMA 17 Hugtök 17 Allir líkamar eiga sér sögu 18 Verkefni – Leysum gátur um líkamann 18 Verkefni – Bókstaflega ég 18 Verkefni – Satt og logið 18 Verkefni – Teiknaðu líkama þinn 19 Allir líkamar eru ólíkir og allir líkamar eru eins 19 Verkefni – Hvernig breytist líkami minn? 20 Við erum öll nakin undir fötunum 20 Verkefni – Klæðaburður í mismunandi menningarheimum 21 Næði og einkamál 22 Verkefni – Trausthringurinn minn 22 Kynfærin 23 Verkefni – Píka, snípur og leggöng 24 Verkefni – Typpi, eistu, pungur 24 Verkefni – Spurningabox 25 Hver er með hvað? 25 STRÁKAR, STELPUR OG VIÐ ÖLL 27 Hugtök 27 Það sem þau kölluðu þig þegar þú fæddist 28 Verkefni – Þegar ég fæddist 28 Það sem við köllum okkur sjálf 29 Verkefni – Klippimynd og gildin okkar 30 Hvað okkur líkar og hvað við gerum 30 Verkefni – Tómstundaiðkun í bekknum okkar 31 SNERTING 32 Hugtök 32 Töfrasnerting 33 Verkefni – Aðstæður snertinga 33 Snerting 34 Verkefni – Hvað finnst líkama mínum? 35 Að snerta annað fólk 35 Að snerta sig sjálf 35 Leyndarmál 36 Verkefni – Hverjum treysti ég fyrir slæmum leyndarmálum? 36 Verkefni – Góð og slæm leyndarmál 36 TÖLUM UM KYNLÍF 38 Góð orð, ljót orð, kynlífsorð 38 Hvað er sexí eða æsandi? 38 Verkefni – Að líða vel með sig sjálf 38 HRIFNING, ÁST OG SAMBÖND 40 Hugtök 40 Hrifning 42 Áhugaverðir tenglar 42 Ást 43 Verkefni – Hvað er ást? 43 Verkefni – Sjálfsást 43 Verkefni – Það sem ég elska 43 Sambönd 44 Verkefni – Samskipti 44 Verkefni – Fánar hinseginleikans . . . . . . . . . . 44 Verkefni – Hinseginleikinn 45 Verkefni – Hvað er góð vinátta? 45 HVAÐ ER NÆST? 47 EFNISYFIRLIT Bls. 18 Bls. 32 Bls. 72 Bls. 90 Bls. 116 Bls. 132 Bls. 4 merkir bls. í bókinni
4 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Til kennara Almennt Bókin Kyn, kynlíf og allt hitt hvetur nemendur til að hlúa að eigin sjálfi, bæði andlega og líkamlega, ásamt því að fræða um þau málefni sem falla undir kynin og líf okkar sem kynveru. Líf okkar sem kynvera hefst um leið og við fæðumst þar sem okkur er úthlutað okkar líffræðilega kyni. Hvað felst í því hefur þegar verið skilgreint af því samfélagi og þeim menningarheimi sem við fæðumst inn í. Þetta er verulega víðfemt viðfangsefni og því ekki hægt að einskorða sig við eina grein innan aðalnámskrár grunnskóla heldur komum við inn á margvíslegar greinar, þ.á m. lykilhæfnina og samfélags-, náttúru- og íþróttagreinar. Bókin skoðar þetta með eins hlutlausum hætti og mögulegt er ásamt því að hvetja nemendur til að hugsa gagnrýnið um þau skilaboð sem samfélagið sendir okkur stöðugt. Þetta er mikilvægt málefni sem þú, kæri kennari, ert að leggja af stað í og í sumum tilfellum getur það reynst viðkvæmt og erfitt. Af þeim sökum er einstaklega dýrmætt að skapa öruggt námsumhverfi þar sem nemandinn skynjar bæði traust og umhyggju. Umhyggja felur í sér að öllum er tekið eins þau eru, án þess að vera dæmd, að vera til staðar fyrir þau ásamt því að styðja hvert og eitt þeirra í því að verða sú persóna sem sóst er eftir að vera. Þegar barn á í hlut felur umhyggja einnig í sér að það sé stutt í að taka eigin ákvarðanir (Katz, 2014). Bekkjarandinn (e. class culture) ætti í raun að einkennast af umhyggju, enda er enska orðið culture dregið af latneska orðinu cultus sem þýðir einmitt umhyggja. Í námsefni sem þessu er nauðsynlegt að skapa aðstæður til trausts og umhyggju innan skólastofunnar og því skaltu hafa í huga að sýna öllum spurningum skilning og svara öllu á sama yfirvegaða hátt (nota „veðurfréttaröddina“), til að gefa það skýrt til kynna að engin spurning sé skrýtin eða asnaleg. Hugmyndafræði og uppbygging efnisins Frumútgáfa bókarinnar nefnist Sex is a funny word þar sem höfundi finnst nauðsynlegt að afnema það tabú sem fylgir orðinu og geta leikið sér með það. Á íslensku er í raun ekki alveg sami leikur í orðinu en orðin sem nýtt eru í íslenska titilinn geta hins vegar verið gildishlaðin í huga nemendanna og mikilvægt að vinna með þann skilning og þær hugmyndir sem þar búa að baki. Höfundurinn skrifaði þessa bók fyrir börn á aldrinum 7–10 ára og af þeim sökum tekur bókin ekki málefni eins og kynþroska eða samfélagsmiðla föstum tökum. Hán skrifaði bókina þar sem háni fannst vanta kynfræðslutengt efni fyrir þennan aldurshóp, þ.e. eftir að búið er að kenna um hvernig börnin verða til og áður en byrjað er að fjalla um kynþroskann. Sama á við hér, Menntamálastofnun er með á boðstólnum námsefnið Komdu og skoðaðu líkamann og Halló heimur 1 sem fjalla meðal annars um hvaðan við komum og námsefni um kynþroskann ætlað 5.–7. bekk. Það er efni eins og Kynfræðsluvefurinn, Ég og sjálfsmyndin og Maðurinn – Hugur og heilsa. Þarna á milli er tilvalið að fræða um kyn, kynlíf og allt hitt. Bókin hefur að geyma 6 kafla og eru sumir hverjir með nokkra undirkafla. Efnið er hægt að kenna sem heild en einnig í bútum þegar tækifæri gefast í kennslunni þar sem að hver kafli getur í raun staðið sem sjálfstæð eining. Það er í þínum höndum að meta hvað hentar þínum nemendahópi best. Einnig að velja og hafna, breyta og/eða bæta við efnið og fylgja þannig þinni fagmennsku sem kennari. Kennsluleiðbeiningarnar hafa að geyma ýmiss konar verkefni: skapandi-, samþættingar-, umræðu- og samvinnuverkefni svo eitthvað sé nefnt. Aftast eru fylgiskjöl við ýmis verkefni, hugtakaskrá og aukaleg skjöl. Tengsl við aðalnámskrá grunnskóla Kennsluleiðbeiningarnar taka mið af hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla frá 2011/2013 og grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Lykilhæfninni er fléttað inn í efnið þar sem það hentar hverju sinni, þ.e. tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi.
5 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Eins og fram hefur komið fellur efnið í Kyn, kynlíf og allt hitt vel að hæfniviðmiðum skólaíþrótta, náttúru- og samfélagsgreina og hér eru dæmi um það: Skólaíþróttir Heilbrigði og velferð í skólaíþróttum Helstu þættir heilbrigðis sem leggja skal áherslu á eru: hreyfing, jákvæð sjálfsmynd, næring, hvíld, andleg vellíðan, skapandi hugsun, jákvæð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Aðalnámskrá hæfniviðmið Við lok 4. bekkjar getur nemandi … • unnið með þær tilfinningar sem fylgja því að vinna og tapa leikjum. • gert sér grein fyrir eigin líkamsvitund og einkastöðum líkamans. • útskýrt líkamlegan mun á kynjum. Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • sýnt virðingu og góða framkomu hvort sem leikur vinnst eða tapast. Jafnframt viðhaft jákvæð og árangursrík samskipti til að efla liðsanda. • rætt líkamsvitund, kynheilbrigði, staðalímyndir í íþróttaumfjöllun og tekið virka afstöðu gegn ofbeldi. • útskýrt misjafnan líkamlegan þroska einstaklinga og kynja. Samfélagsgreinar Reynsluheimur Við lok 4. bekkjar getur nemandi ... • borið kennsl á gildi, svo sem virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhyggju og sáttfýsi. Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • sýnt fram á skilning á mikilvægum gildum, svo sem kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti, umhyggju fyrir öðrum mönnum og öllu lífi. Hugarheimur Við lok 4. bekkjar getur nemandi ... • sagt frá sjálfum sér með hliðsjón af búsetu, uppruna, fjölskyldu, siðum og venjum. • bent á gildi jákvæðra viðhorfa og gilda fyrir sjálfan sig. • bent á dæmi um hefðbundin kynhlutverk og breytingar á þeim. • gert sér grein fyrir hvar styrkur hans liggur. • áttað sig á og lýst ýmsum tilfinningum, svo sem gleði, sorg og reiði. • gert sér grein fyrir að í umhverfinu eru margvísleg áreiti, jákvæð og neikvæð, sem hafa áhrif á líf hans. • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna. • sett sig í spor annarra jafnaldra.
6 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • lýst sjálfum sér og tekið dæmi um þætti sem hafa áhrif á sjálfsmynd hans, svo sem úr nærsamfélagi, umhverfi og menningu. • lýst með dæmum gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats fyrir eigin sjálfsvitund. • áttað sig á ólíkum kynhlutverkum á nokkrum sviðum og hvernig þau mótast og breytast. • gert sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum. • vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalmynda, hvernig vinna megi með þau á sjálfstæðan og uppbyggjandi hátt. • lýst margvíslegum tilfinningum og áttað sig á, áhrifum þeirra á hugsun og hegðun. • metið jákvæð og neikvæð áhrif ýmissa áreita í umhverfinu á líf hans og tekið gagnrýna afstöðu til þeirra. • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og rætt þýðingu þess. • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum. Félagsheimur Við lok 4. bekkjar getur nemandi ... • tekið þátt í samstarfi og samræðu í jafningjahópi. • áttað sig á að fólk býr við ólík fjölskylduform, hefur ólíkan bakgrunn og ber virðingu fyrir mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum. • hlustað á og greint að ólíkar skoðanir. • rætt um valin samfélagsleg og siðferðileg málefni. • rætt um réttindi sín og skyldur í nærsamfélaginu og sýnt ábyrgð í samskiptum við aðra og þekkt til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. • tjáð þekkingu sína og viðhorf með ýmsum hætti. • áttað sig á gildi jafnréttis í daglegum samskiptum. • sýnt tillitssemi og virðingu í samskiptum og samvinnu við aðra. • sýnt að hann virðir reglur í samskiptum fólks, skráðar og óskráðar, og nefnt dæmi um slíkar reglur. • sýnt tillitssemi og umhyggju í leik og starfi. Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • borið kennsl á ólíkan bakgrunn fólks og virt frelsi þess til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta. • metið og brugðist við ólíkum skoðunum og upplýsingum á fordómalausan hátt. • rökrætt um ólík málefni af samfélagslegum og siðferðilegum toga. • tekið þátt í samræðu um stöðu sína sem þátttakandi í samfélaginu, réttindi og skyldur, sýnt ábyrgð í samskiptum og átti sig á réttindum sínum samkvæmt alþjóðasáttmálum. • nefnt dæmi um gildi jafnréttis og mannréttinda í samfélaginu og rætt áhrif staðalímynda. • sýnt sanngirni, sjálfstraust og virðingu í samskiptum og samvinnu við aðra. • rætt reglur í samskiptum fólks og tekið þátt í að setja sameiginlegar leikreglur með öðrum.
7 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Náttúrugreinar Við lok 4. bekkjar getur nemandi … • hlustað á og rætt hugmyndir annarra. • útskýrt á einfaldan hátt hvernig barn verður til og þekkir einkastaði líkamans. Við lok 7. bekkjar getur nemandi ... • hlustað á, metið og rætt hugmyndir annarra. • lýst breytingum sem verða við kynþroskaaldur og gert sér grein fyrir mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum kynjanna. Kennsluaðferðir sem henta efninu Í kennsluleiðbeiningunum er stungið upp á fjölmörgum kennsluaðferðum og oft bent á fleiri en eina útfærslu á verkefnum. Unnið er með umræðu- og spurnaraðferðir, samvinnunám, vinnublöð, beina kennslu (t.d. sýnikennslu, myndmiðla og hlustunarefni), hlutverkaleiki, ýmiss konar leitaraðferðir (t.d. viðtöl við aðra, efnis- og heimildarleit og gagnaöflun og greiningu), þrautalausnir og ýmiss konar tjáningaraðferðir á borð við myndsköpun, leikræna tjáningu, tónlist/söng og skriflega tjáningu. Sum verkefni henta vel til samþættingar við aðrar námsgreinar og þá er hægt að sækja í enn fleiri kennsluaðferðir, til að mynda sýnikennslu, spurningalistakannanir og fleira. Það liggur í fagmennsku hvers kennara hvernig efnið er unnið og tekið áfram með nemendum. Hugmyndir að námsmati Mikilvægt er að námsmat sé fjölbreytt og greinandi. Námsmat ætti að vera til þess fallið að leiðbeina nemendum áfram í námi sínu, hjálpa þeim að átta sig á eigin styrk- og veikleikum ásamt því að styðja þau í að setja eigin markmið til bætingar. Í efni sem þessu er enn fremur einstaklega mikilvægt að námsmat sé til þess fallið að styrkja sjálfsmynd nemenda og bæði styðja og stuðla að sjálfstæði þeirra. Lagt er upp með ýmiss konar vinnu og því kjörið að safna efninu saman í verkmöppu og hafa jafningjamat og sjálfsmat með reglulegu millibili, sjá dæmi á bls. 69–74. Leiðsagnarmat, umræður og nýting matskvarða við kynningar og önnur skilaverkefni eru tilvalin fyrir fjölbreytt námsmat og fara eftir aldri nemenda. Ekki er lagt til að það sé eitthvert eitt lokamat, heldur ætti námsmat að vera í formi símats. Áður en hafist er handa við að vinna með efnið er gott að kennari kanni forhugmyndir nemenda, með því á ákveðið stöðumat sér stað. Það gefur kennaranum tækifæri til að laga kennslu sína að stöðu og þörfum nemenda. Heimildir: Baier, A. (1986). Trust and antitrust. Ethics, 96(2), 231–260. Dweck, C. S. (2017). Mindset. Changing the way you think to fulfil your potential (uppfærð útgáfa). London: Robinson. Katz, M. S. (2014). The role of trustworthiness in teaching. Studies in Philosophy and Education, 33, 621-633.
8 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 3–17 Kynning Í kaflanum eru persónur bókarinnar kynntar og smám saman komumst við í kynni við hvert barn. Þá öðlast nemendur betri skilning á sjálfum sér og samnemendum sínum við þá vinnu sem fer í hönd. Bakgrunnur persónanna Höfundur valdi nöfnin þannig að þau endurspegluðu bakgrunn hverrar persónu. Það birtist ekki alltaf í sögunni sjálfri en kemur fram hér að neðan. Mía Mía er fædd í Kína og ættleidd af tveimur samkynhneigðum mönnum. Þeir völdu nafn fyrir hana sem var bæði kunnuglegt og auðvelt að bera fram fyrir þeirra samfélag en líka nafn sem er dálítið einstakt. Nafnið er kunnuglegt en ekki eitt af algengustu nöfnunum. Kári Kári á mörg systkini og hann er hluti af lýðfræðilegum meirihluta þar sem hann býr sem á síður við um hinar persónurnar. Ómar Ómar er fæddur á Íslandi en fjölskylda hans er frá Pakistan. Þau eru ekki mjög trúuð hversdags en hefðir og fjölskylda eru mikilvægar fyrir þeim. Nafnið Ómar er hefðbundið og algengt strákanafn í þeirra samfélagi. Aló Aló er sú persóna sem er mest flæðandi og ber nafn sem er fremur óalgengt. Í bókinni er það aldrei staðfest hvert úthlutað kyn og kynvitund Alós er og hvaða fornafn Aló vill nota. Í einni myndasögunni sjáum við Aló verða vitni að því að strák er sagt að hann geti ekki verið í bleiku og síðar segir Aló mömmu sinni að Aló haldi upp á bleikan lit. Þetta gæti valdið því að lesendur geri ráð fyrir að Aló hafi verið úthlutað karlkyni við fæðingu og sé strákur en það er ekki ljóst. Höfundinum finnst líklegast að Aló sé með flæðandi kynvitund (Aló gæti e.t.v. viljað nota orðin kynsegin eða flæðigerva en við vitum það ekki fyrir víst og ekki öruggt að Aló viti það heldur). En þegar sagan hefst er Aló að byrja að spyrja sig hvar Aló passar inn í hvað varðar kyn. Aló ber þess vegna nafn sem við upplifum að gæti verið strákur, stelpa, hvort tveggja eða þarna á milli. Í þessari lýsingu eru engin fornöfn notuð yfir Aló þar sem það er sú leið sem höfundurinn fer. Sum okkar kjósum að nafn okkar sé ávallt notað í stað fornafns, önnur vilja nota fornafn. Við vitum ekki hvaða fornafn Aló myndi kjósa og því færi líklega best á að nota alltaf nafnið Aló í stað fornafns þegar talað er um Aló. Fróðleikur Hugtakið kynlíf er samsett úr orðunum kyn og líf. Kynlíf nær því utan um allt það sem viðkemur lífi okkar sem kynvera. Verðandi foreldrar fá nánast án undantekningar spurninguna um hvort þau viti hvort kynið barnið sé. Um leið og líffræðilegt kyn er vitað gerir samfélagið ákveðnar væntingar um kyngervi barnsins, markaðsráðandi öfl senda oft þau skilaboð að bleikt sé fyrir líffræðilegar stúlkur og blátt fyrir líffræðilega stráka, að strákar séu vísindalega þenkjandi á meðan stúlkur séu félagslega þenkjandi. Þegar við upplifum að við pössum ekki inn í þann ramma sem samfélagið hefur sett fram (hið samfélagslega kyn; kyngervi), þá getur einstaklingurinn upplifað vanmátt og kvíða. Þessi kafli er kynning á því að kynlíf, þ.e. líf okkar sem kynvera, er ekki einhliða, heldur einstaklega margþætt!
9 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Áður en hafist er handa við að skoða og kanna efni bókarinnar með nemendum er mikilvægt að kanna þá forþekkingu og forhugmyndir sem nemendur búa yfir um efnið. Það gefur þér, sem kennara, betri skilning á því hvar nemendur eru staddir og þar með ákveðinn grunn til að vinna út frá, bæði í verkefnum og umræðum. Í þessum kafla eru tilfinningar nefndar og það er góð hugmynd að vinna með tilfinningagreind út frá því. Að kenna nemendum að tala um og bera kennsl á eigin tilfinningar er mikilvægt skref í tilfinningaþroska þeirra. Það hjálpar þeim að gera sér betur grein fyrir því sem þau eru að upplifa og geta þá um leið tjáð sig um þær því þau hafa orðaforðann eftir kennsluna. Nemendur sem eiga í erfiðleikum með tilfinningastjórnun geta grætt mikið á kennslu sem þessari því þau geta þá betur tjáð sig um eigin upplifanir. Hugtök Kyn (e. sex) er okkar líffræðilega kyn. Í daglegu tali á Íslandi er hugtakið kyn notað jafnt yfir líffræðilegt kyn, kynvitund okkar og félagslegt kyn (kyngervi), gagnlegt er að gera greinarmun á þessu við nemendur. Kyngervi (e. gender) er félagslega mótað kyn, þ.e. mótað af samfélaginu og þeirri menningu sem við ölumst upp í. Kyngervi tekur mið af þeim væntingum sem samfélagið gerir til okkar út frá kyni okkar, t.d. hver ættu að vera áhugamál okkar, uppáhalds litur, hvaða klæðaburður er við hæfi eða jafnvel hvaða vinnu/hlutverki við eigum að sinna. Kynlíf (e. sex life) er samþykk kynferðisleg reynsla sem fólk upplifir eitt með sjálfu sér eða öðrum einstaklingi. Kynvitund (e. gender identity) er það hvernig við upplifum okkar eigið kyn, það tengist ekki líffræðilegum þáttum heldur einungis upplifun einstaklingsins. Bls. 8–9 Verkefni – Forhugmyndir og forþekking Unnið í litlum hópum. Hver hópur fær blað með hugtökunum Kyn og Kynlíf í miðju blaðsins. Nemendur teikna og/eða skrifa allt sem þeim kemur til hugar þegar hugsað er um hugtökin tvö. Önnur möguleg útfærsla er að nota forrit til að búa til gagnvirkt hugtakaský (t.d. www.mentimeter. com). Bls. 10–11 Umræðupunktar Athugið að í ensku útgáfunni nefnist námsefnið Sex is a funny word. Þess vegna spyr kennarinn á bls. 11: Hvað gerir kynlíf að fyndnu orði. • Hvað datt ykkur í hug þegar þið heyrðuð orðin Kyn og Kynlíf? Finnst ykkur þau fyndin eins og Míu eða Kára? • Hvað ætli Aló eða Ómari finnist um orðið? Hvernig haldið þið að þeim líði á síðustu myndinni? • Hvaða fleiri orð dettur ykkur í hug sem hafa margar merkingar? o Fyrir kennara – t.d. dýr, hús (blokk-bústaður o.s.frv.) …
10 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 12–13 Verkefni – Skoðanakönnun Hugtakið kynlíf vekur upp alls kyns tilfinningar og viðbrögð, sama á hvaða aldri við erum. Líkt og Ómar bendir á, þá bregðast einstaklingar mismunandi við þegar kynlíf er nefnt á nafn. Í þessu verkefni gera nemendur skoðanakönnun til að athuga hvaða tilfinning kemur upp í hugann þegar börn og fullorðnir heyra orðið kynlíf. Nemendur skrá niðurstöðurnar og setja upp á myndrænan hátt, til dæmis með súluriti (bæði fyrir yngri og eldri nemendur) eða kökuriti (fyrir eldri nemendur). Hugmyndir að tilfinningum: Vandræðalegt, fyndið, skrýtið, óþægilegt, spennandi, áhugavert, fallegt. Hægt er að nýta fylgiskjalið um Tilfinningar, bls. 49, til fá fleiri hugmyndir að tilfinningum. Hægt er að samþætta verkefnið við stærðfræði (tölfræði og líkindi) og vinna með tengd hugtök. Bls. 14–15 Umræðupunktar • Hvað ætli við séum að fara að læra um í þessari bók? • Hvað finnst ykkur mikilvægt að fjalla um? • Ef við skoðum næstu opnu (bls. 16–17), hvað segir hún okkur meira um umfjöllunarefnið? o Hvað haldið þið að verði áhugaverðast? Eða skemmtilegast? Áhugaverðir tenglar Sterkari út í lífið – Tilfinningahjól: https://sterkariutilifid.is/verkefni/tilfinningahjol-2/
11 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Meira og fleira Hægt er að vinna með tilfinningagreind út frá verkefni tvö, t.d. með því að nýta verkefni frá Sterkari út í lífið eða fylgiskjalið Tilfinningar á bls. 49. Hvaða tilfinning passar við þig þegar þú: • finnur lyktina af nýbakaðri köku? • ert að bíða eftir að fá að opna pakkana þína á jólunum? • svíkur loforð sem þú gafst vini/vinkonu? • sérð að einhver sem þú þekkir fékk dót að gjöf sem þú hefur óskað þér í marga mánuði? • brýtur uppáhalds kaffibolla einhvers? • hjálpar vini/vinkonu sem er í vanda? Endilega bætið við fleiri aðstæðum eða fáið nemendur til að koma með eigin aðstæður þar sem þau upplifðu tilfinningar sem koma fram á spjaldinu. Samantekt Þar sem þessi kafli er kynning á því sem koma skal, er ekki neitt sjálfsmat hér líkt og í næstu köflum. Helsta markmiðið er að áhugi hafi verið kveiktur og nemendur séu meðvitaðir um misjafna líðan okkar þegar kemur að efni bókarinnar.
12 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 HVAD ER KYNLÍF? Kynlíf fjallar um margvíslega þætti: líkamann, uppvöxt, fjölskyldur, börn, ást, virðingu, traust, ábyrgð, forvitni, tilfinningar, heilbrigði, líffæri, kynvitund, mörk, kyntjáningu og svo margt fleira! Þessi kafli opnar á þær margþættu merkingar sem kynlíf hefur að geyma. Fróðleikur Virðing, traust, gleði og réttlæti ætti að einkenna öll samskipti, hvort sem það er innan fjölskyldu, milli vina, við kennara eða í öðrum aðstæðum. Við þurfum öll, þ.á m. nemendur, einhvern sem við treystum, til að tala við um líðan okkar, hugsanir og upplifanir. Nemendur þurfa einnig einhvern sem þau treysta til að tala við, ræða mörk og spyrja þeirra spurninga sem þau mögulega hafa. Mikilvægt er að koma þeim skilaboðum áleiðis til nemenda að engin spurning sé asnaleg og það er best gert með því að svara öllum spurningum á sama yfirvegaða hátt. Hugtök Virðing, traust, gleði og réttlæti eru mikilvæg hugtök í þessum kafla og eru útskýrð vel á blaðsíðum 26-29 í bókinni sjálfri. Samkennd felur í sér getuna til að sýna öðrum skilning, setja sig í spor annarra og geta hlustað á ólík sjónarmið án þess að dæma þau. Kveikja Horft á myndbandið A joy story. Stuttmyndin er án tals og fjallar um samskipti hunds (Joy) og hegra (Heron). Í þessari kveikju er hægt að taka eftirfarandi umræðupunkta: • Hvað hélt Joy (hundurinn) að Heron (hegrinn) væri að gera? Af hverju breyttist síðan afstaða Joy? o Joy hélt að Heron væri að stela ormum án ástæðu og var reiður út í hegrann. Þegar Joy sá að Heron var að reyna að gefa svöngum en vandlátum ungum sínum að éta (þegar hann sá hver væri saga Heron, sbr. 3. kafla) þá breyttist afstaða Joy. Joy hætti að vera reið/reiður/reitt og sýndi samkennd með því að bjóða Heron að koma og sækja orma handa ungunum. Að sýna öðrum samkennd felst í að sýna upplifun þeirra og sögu virðingu. o Mikilvægt er að byrja á að skilja hvað er raunverulega í gangi og passa sig á að draga ekki órökstuddar ályktanir. Reynum að sjá fyrst heildarmyndina áður en við dæmum eða bregðumst við, því stundum eða jafnvel oftast, sjáum við einungis lítinn hluta (bókarkápuna) af heildarsögunni (sagan á blaðsíðum bókarinnar). • Hvaða tilfinningar haldið þið að Joy og Heron hafi upplifað í myndinni? o Tengja má gleði, virðingu og réttlæti (að hluta) við stuttmyndina. Þegar Joy gefur Heron ormana, sýnir hann virðingu í verki og bæði Heron og Joy upplifa gleði við það. Heron kemur svo með fullan gogg af fiski og gefur Joy, sem má sjá sem réttlæti eða virðingu en það fer eftir sjónarhorni nemenda og því um að gera að fá fram þeirra skoðun. Við það að gefa fiskinn sjáum við aftur gleði hjá Joy, Heron og veiðimanninum. • Hvaða kyn ætli Joy og Heron séu? o Hér er tilgangurinn að fá nemendur til að hugsa um hvað það er sem gefur okkur þá hugmynd að eitthvað sé karl- eða kvenkyns. Ekkert í stuttmyndinni gefur til kynna hvort Joy eða Heron eru stelpa eða strákur en á hvaða rökum byggja nemendur svar sitt? Mögulega eiga nemendur Bls. 18–31
13 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 eftir að segja að Heron sé stelpa því fuglinn er að hugsa um ungana sína en bæði pabbar og mömmur hugsa um ungana sína. Bls. 20–21 Umræður – Unnið í tengslum við verkefnið Forhugmyndir og forþekking hér að framan (bls. 9). Eftir að hafa lesið saman opnuna má draga fram fyrsta verkefnið þar sem forþekking og forhugmyndir nemenda voru kannaðar. Ræðið út frá því hvaða stóru spurningar má sjá út úr því verkefni, hverjar eru hugmyndir bekkjarins um orðin kyn og kynlíf? Bls. 22–23 Til kennara: Merking orða er háð samhengi og það fer oft eftir samfélögum hvernig orð eru túlkuð. Á þessari opnu er orðið leikur notað til að útskýra að þegar við heyrum orðið nefnt, þá túlkar hvert og eitt okkar það oft á ólíkan hátt. Sum að það tákni að leika sér í eltingaleik eða í borðtennis á meðan önnur að það sé að leika í leikriti eða spila tölvuleik svo dæmi séu tekin. Önnur orð eins og kyn og kynlíf hafa einnig margþætta merkingu á meðan orð eins og sjónvarp og lyklakippa merkja það sama í hugum flestra. Kveikja Segðu nemendum að viðfangsefni dagsins snúist um að skilja orð, sérstaklega orð eins og kyn og kynlíf. Útskýrðu að þetta séu fullorðins orð en það er gott að byrja að skilja þau jafnvel þegar við erum ung. Umræður Lestu textann upphátt fyrir bekkinn og spurðu því næst einfaldra spurninga eins og: • Getið þið nefnt orð sem þýða alltaf það sama? • Getið þið hugsað orð sem geta þýtt mismunandi hluti? Útskýrðu að rétt eins og orðið leika getur þýtt mismunandi hluti (eins og að spila leik eða spila tónlist), geta kyn og kynlíf einnig þýtt mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk. Verkefni Skiptu bekknum í litla hópa. Gefðu hverjum hópi merki og hluta af kennaratöflu eða flettitöflu. Biðjið nemendur að teikna eða skrifa orð sem hafa eina merkingu og orð sem hafa margar merkingar. Hver hópur deilir því sem hann teiknaði eða skrifaði. Dragðu að lokum saman með því að segja að orð geta verið einföld eða þau geta verið flókin, eins og kyn og kynlíf. Láttu þau vita að það sé í lagi að hafa spurningar um þessi orð og þau geti alltaf spurt fullorðna sem þau treysta. Umræðupunktar • Hvaða fleiri orð dettur ykkur í hug sem tengjast orðinu leikur? • Hvaða leiki lékuð þið í síðustu frímínútum? • Er einhver einn leikur réttasta útskýringin á því hvað orðið leikur þýðir? • Hvernig getum við verið örugg um að allir skilji hvað felst í leiknum? Tilvalið er að ræða, að á sama hátt og enginn einn leikur er réttasta útskýringin á hvað leikur er, þá er engin ein útskýring á því hvað kyn og kynlíf er. Þetta er tilvalin kynning á hugtökum næstu opnu.
14 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 24–25 Verkefni – Æxlun Fyrir yngsta stig Fjallið um fósturþroska og sýnið mynd sem lýsir því hvað gerist í þroska fóstra mánuð eftir mánuð. Þegar við fæðumst erum við mismunandi að lengd og þyngd en öll dýrmæt. Nemendur afla upplýsinga heima fyrir um eigin fæðingu s.s. • Hve löng var meðgangan? (40 vikur + -) • Hversu langan tíma tók fæðingin? • Hver var fæðingarlengdin og fæðingarþyngd? Í skólanum mæla þau hver lengd þeirra er í dag. Í kjölfarið mæla nemendur garn í samsvarandi lengd, bæði fæðingarlengd og núverandi lengd. Efsti hluti hvers garnsspotta fyrir sig er svo límdur á blað og lengdin skrifuð til hliðar. Á sama blað teikna nemendur mynd af sér sem fóstri. Fyrir miðstig Til kennara: Hafðu í huga að æxlun getur átt sér stað á margvíslegan hátt. Til dæmis með samförum, tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Endilega taktu þá umræðu með nemendum áður en þau fara af stað í verkefnið, þannig geta þau valið þá nálgun sem þau vilja taka. Kveikja: Horfið á myndbandið Meðganga og frjóvgun inni á Kvistir hjá MMS undir líffræði. Nemendur leita að upplýsingum á netinu og/eða í bókum um hvað felst í æxlun. Dæmi um spurningar sem nemendur leita að svörum við: • Hvað þarf til svo að fóstur byrji að þroskast? • Hversu löng er meðganga? • Hvernig lítur fóstrið út í hverjum mánuði? • Hvenær myndast hjarta og heili? o Hvenær byrjar hjartað að slá? Afurð gæti verið fræðslubæklingur, hljóðvarp, ljóð, glærur, veggspjald eða stuttmynd. Hér er tilvalið að leyfa nemendum að velja þá aðferð sem þau vilja nota til að skila af sér efninu. Bls. 26–29 Umræðupunktar • Hvernig sýnum við virðingu? • En hvað er óvirðing? Getið þið nefnt dæmi? • Þurfum við að skilja hluti/skoðanir/fólk til að sýna virðingu? • Hvaða einstaklingum treystið þið? • Hvað veitir ykkur gleði? Hvaða leiðir farið þið til að upplifa ánægju og/eða hamingju? • Hvað er óréttlæti? • Hefur einhver upplifað óréttlæti? o Treystir þú okkur til að deila því með okkur?
15 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 26–29 Myndbönd Hér eru þrjú myndbönd sem mögulegt er að nýta með viðeigandi blaðsíðum. Nemendur rappa um virðingu (e. Respect Rap) Traust útskýrt (e. What‘s the word: Trust) Krakkar útskýra gleði/hamingju (e. Kids explain happiness) Verkefni – Virðing | Traust | Gleði | Réttlæti Nemendur vinna saman í litlum hópum og taka sjálf ferns konar ljósmyndir. Ein ljósmynd á að túlka virðingu, önnur traust, sú þriðja gleði og sú fjórða réttlæti. Ef aldur nemenda leyfir, þá útbúa þau skýringartexta við myndirnar sem útskýrir túlkun hópsins á hverju hugtaki fyrir sig. Einnig tilgreina þau hver tók myndina. Útfærslur að skilum: • Glærukynning – Ein mynd á hverri glæru með titlinum. Nemendur kynna fyrir bekknum eða útbúa QR kóða sem er prentaður og hengdur upp í skólanum/heima fyrir aðra til að skanna og skoða. • Gagnvirkur spurningaleikur – nemendur giska á hvaða þemaorð á við hvaða mynd. • Veggspjald – Myndirnar eru prentaðar út, límdar á veggspjald með viðeigandi titli myndar og hengdar upp á vegg. Hægt að halda ljósmyndasýningu og bjóða foreldrum að koma. Fyrir yngsta stig Sýnið nemendum eftirfarandi myndir eða finnið aðrar sambærilegar og ræðið við þau hvað þær gætu túlkað: virðing, traust, gleði og/eða réttlæti. Flestar geta þær túlkað fleira en eitt hugtak. Virðing, traust, gleði Traust, gleði Gleði, traust, virðing Réttlæti, traust
16 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Framhaldsverkefni Finnið til fjölbreyttar myndir sem lýsa þessum hugtökum. Nemendur skipta borðinu í fjögur svæði og ræða saman í litlum hópum hvað hver og ein mynd getur táknað og setja á það svæði sem flest eru sammála um. Áhugaverðir tenglar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna Umboðsmaður barna Education for democracy and human rights – Council of Europe Lesleiðbeiningar frá höfundi efnisins með öðru efni: What makes a baby Meira og fleira Hægt er að útfæra efni kaflans á aðra vegu. Hér eru dæmi um fleiri hugmyndir sem nemendur geta útbúið út frá hugtökunum: virðing, traust, gleði, réttlæti: • Leikir – Nemendum er skipt upp í litla hópa og hver hópur velur einn leik til að kenna öðrum (kennarar og stuðningsfulltrúar meðtaldir). Þegar hóparnir hafa undirbúið sig og ákveðið hvernig á að kenna leikinn er farið út á skólalóð eða á annan stað og leikurinn kenndur. Þegar við erum að læra nýja hluti þurfum við að leggja traust okkar á þann sem kennir leikinn, við upplifum gleði í gegnum leiki og mikilvægt er að bera virðingu fyrir öllum þeim sem taka þátt í leiknum. • Leikþáttur – Nemendur útbúa leikþátt um eitt eða fleiri hugtök: virðingu, traust, gleði, réttlæti. • Myndasaga (annaðhvort á blaði eða í tölvu) sem sýnir fram á hugtökin. • Lag og texti – Sjá dæmi um slíkt: Respect rap. • Stuttmynd. Verkefni úr öðru námsefni sem hægt er að nýta: • Hugrún – eftirRÉTTUR, bls. 54. • Ég, þú og við öll. • Litli Kompás bls. 34. Litlir strákar gráta ekki! Samantekt Í lok þessa kafla ættu nemendur að hafa skilning á: • að hugtökin kyn og kynlíf hafa margþætta merkingu og að engin ein merking er réttari en önnur, frekar en þegar rætt er um hugtakið að leika. • hvernig æxlun fer fram, þ.e. sameining sæðis og eggfrumu (hvort sem er við samfarir eða eftir öðrum leiðum líkt og tæknifrjóvgun eða glasafrjóvgun). • hvað hugtökin virðing, traust, gleði og réttlæti fela í sér og geta tengt þau við samskipti. Hægt er að láta nemendur fylla út sjálfsmat 1 af bls. 69, þar sem þau krossa yfir þann broskarl sem þeim finnst passa best við staðhæfinguna.
17 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 LÆRUM UM LÍKAMA Kaflinn fjallar um að líkamar eru ólíkir og öll megum við vera eins og við erum. Ekkert eitt útlit er rétt. Flest erum við forvitin um eigin líkama og líka annarra. Farið er í uppbyggingu æxlunarfæranna ásamt því að skoða fleiri líffæri sem tengjast kyneinkennum og kynímynd. Fróðleikur Í kaflanum er fjallað um líkama, nekt, kynfæri og heiti kynfæra. Í kaflanum er sérstaklega tekið fram að ekki er talað um kynfæri, sem einkastaði heldur er allur líkaminn okkar einkasvæði. Þessi skilgreining leggur enn frekar grunninn að því að nemendur standi vörð um eigin mörk, hvaða snertingu þau velja og vilja og þá vitneskju að þau ein eigi sinn líkama. Komið er inn á nekt og klæðnað í þessum kafla. Hér gefst kjörið tækifæri til að ræða mismunandi menningarheima og hefðir. Við getum nýtt klæðnað til að skilgreina okkur eða koma einhverjum skilaboðum áleiðis en klæðnaður er einnig mismunandi eftir menningarheimum og það geta verið margir menningarheimar innan samfélagsins. Það sem telst eðlilegt í okkar huga telst það ef til vill ekki í öðrum menningarheimum og því er mikilvægt að bera virðingu fyrir margbreytileikanum í klæðnaði. Sért þú að kenna þetta efni á miðstigi, þá er vert að nefna að þessi kafli tekur ekki fyrir hvað felst í kynþroska en það er nefnt að líkami okkar tekur breytingum yfir æviskeið okkar. Viljir þú sem kennari taka sérstaklega fyrir kynþroska, þá er mælt með að nýta sér efnið úr Ég og sjálfsmyndin, þar er góður kafli sem tekur fyrir kynþroskann og þær líkamlegu breytingar sem eiga sér stað yfir þann tíma. Mikilvægt er að hafa nemendahópinn til hliðsjónar þar sem sumir hópar eru komnir langt í vangaveltum um kynþroska og áhrif hans og því mis- áríðandi að taka málefni kynþroskans fyrir eftir hópum. Hugtök Kynþroski/kynþroskaskeið er tímabil þegar líkami einstaklinga tekur miklum breytingum á tiltölulega stuttum tíma, bæði sálfræðilega og líkamlega. Kynþroski á sér stað á nokkrum árum en getur hafist á mjög misjöfnum tíma, allt eftir einstaklingnum. Kynþroski getur hafist á aldrinum 8 til 18 ára. Það getur reynst börnum erfitt að byrja snemma á kynþroskaskeiðinu og einnig seint miðað við aldurshópinn. Þá skiptir máli að muna að við erum öll ólík og misjafnlega fljót að taka út þroska. Næði er stund sem við eigum í algjörum friði og án truflana frá öðru áreiti. Einkamál eru persónuleg málefni, í sumum tilfellum viðkvæm málefni, sem tengjast einstaklingnum sjálfum og kemur ekki öðrum við. Við ráðum yfir okkar einkamálum og hvort (og þá með hverjum) við deilum slíkum málum. Kynfæri er hugtak sem, í fræðilegu tali, nær yfir þau líffæri sem annast æxlun, þ.e. typpi, eistu og pung annars vegar og píku, leg og eggjastokka hins vegar. Stundum fer það eftir einstaklingnum sjálfum hvað hugtakið kynfæri felur í sér. Menningarheimur er stórt samfélag þar sem ákveðin menning og hefðir eru ríkjandi og einkenna það samfélag. Þó svo að fólk flytjist á milli menningarheima getur það enn þá tilheyrt sínum upprunalega menningarheimi í nýju landi þar sem er allt annar menningarheimur. Hægt er að tilheyra fleiri en einum menningarheimi. Intersex er hugtak sem nær yfir nokkuð breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum sem tilheyra bæði karl- og kvenkyni. Intersex eiginleikar geta verið sjáanlegir strax við fæðingu en stundum koma eiginleikarnir ekki í ljós fyrr en þegar einstaklingurinn byrjar kynþroska, reynir að eignast barn með öðrum einstaklingi eða fyrir einskæra tilviljun. Þetta er því fremur víðfeðmt hugtak. Bls. 32–71
18 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 34–39 Allir líkamar eiga sér sögu Hver og einn einstaklingur á sér sína sögu. Í kennslustofu með 17 nemendum, einum kennara og einum stuðningsfulltrúa eru 19 mismunandi sögur, 19 mismunandi upplifanir af því hvað er að eiga sér stað innan kennslustofunnar og því 19 mismunandi frásagnir af því sem átti sér stað. Hver saga er jafn rétt og önnur saga og því skal sýna hverri sögu jafn mikla virðingu, áhuga og einlægni og öðrum. Hér á eftir eru verkefni sem eru ætluð til að sýna nemendum einmitt þetta og hjálpa þeim að sýna öðrum og þeirra sögum virðingu. Bls. 34–35 Verkefni – Leysum gátur um líkamann Nemendum er skipt í litla hópa og hver hópur fær blað með gátum um mismunandi líkamshluta til að leysa. Afhendið hverjum og einum hópi eitt verkefnablað, sjá verkefnið Leysum gátur um líkamann bls. 50 Mögulegt er að vinna þetta saman sem ein heild. Lausnir við gátunum: 1. Nöglin 2. Blóðið 3. Hjartað 4. Hnéskel 5. Bakið 6. Augað Bls. 36–37 Verkefni – Bókstaflega ég Nemendur fara á bókasafnið eða í bókahillu og velja bækur út frá titlum. Þau raða síðan saman nokkrum bókum og mynda nýjan titil sem gæti fjallað um þau og taka mynd af titlinum sem þau bjuggu til, eða skrifa hann niður. (Umræða) Alveg eins og titillinn sem þú valdir segir ekki fulla sögu um þig, þá segja „bókakilir“ annarra ekki þeirra sögu. Af hverju er mikilvægt að hafa það í huga? Bls. 38–39 Verkefni – Satt og logið Nemendur útbúa þrjár staðreyndir um sig, tvær þeirra skulu vera sannar en sú þriðja uppspuni. Aðrir eiga síðan að giska á hvaða staðreynd er uppspuni. Hægt er að taka umræðu út frá leiknum, þar sem að við sjáum ekki utan á einstaklingunum hver er saga þeirra (þ.e. hvaða staðreyndir eru sannar). Við vitum aldrei nákvæmlega hvaða sögu einstaklingar hafa að geyma.
19 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 39 Verkefni – Teiknaðu líkama þinn Nemendur teikna mynd af líkama sínum eins og þeim finnst hann líta út. Síðan teikna þau myndir af því hvernig þau upplifa sögurnar innra með sér. Því næst bera þau saman hvernig líkamar þeirra líta út á myndinni og hvernig þau upplifa hann. Hvað er líkt og hvað er ólíkt? Áhugaverðir tenglar Myndbandið við lagið Welcome to Wonderland eftir Anson Seabra er hægt að nýta í að tala um sögurnar okkar. Ef þetta væri bókin okkar, hvaða saga myndi birtast á blaðsíðunum? Bls. 40–45 Allir líkamar eru ólíkir og allir líkamar eru eins Frá um átta ára aldri byrjar líkami barna að breytast og þroskast yfir í að verða líkami fullorðins einstaklings. Börn geta upplifað forvitni, haft margs konar spurningar varðandi þær breytingar og sum upplifa jafnvel kvíða yfir komandi breytingum eða skömm yfir breytingunum, hvort sem þær hafa átt sér stað eður ei. Allar tilfinningar gagnvart kynþroskanum eiga rétt á sér og eru eðlilegar og mikilvægt er að koma þeim skilaboðum áleiðis til nemenda. Kveikja Kveikjan hentar miðstigi. Horfið saman á kaflann Líkaminn úr stuttmyndinni Stattu með þér. Þessi kafli kemur aðeins inn á kynþroska og að efni á netinu getur verið misvísandi. Komið er inn á hversu mörg kraftaverk líkaminn gerir á hverri mínútu og hversu einstakur hann er. Bent er á að fara inn á 6h.is en sá vefur er ekki lengur til staðar og í staðinn má skoða kynheilbrigði inni á www.heilsuvera.is. Kaflann úr Stattu með þér má finna hér: Ræðið út frá myndbandinu: • hvað getur líkami okkar gert á hverju aldursstigi fyrir sig? • breytist það eftir því hversu gömul við erum? • hvernig hugum við að heilbrigðum líkama? • við hvern getum við talað ef við höfum spurningar um líkama okkar? • hvað gerir líkama okkar (hvers og eins) einstakan? • hvaða stórkostlegu hluti getur líkami ykkar framkvæmt/gert? Bls. 42–43 Umræðupunktar • Af hverju er mikilvægt að spyrja hvort maður megi snerta annan líkama? • Hvað þýðir að hlusta á líkama sinn? o Hvernig segir hann okkur að við séum svöng/þreytt/spennt eða döpur? • Hvað haldið þið að Kári sé að meina þegar hann segir að stundum þurfum við hjálp frá öðrum líkömum?
20 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 Bls. 44–45 Verkefni – Hvernig breytist líkami minn? Afhendið hverjum og einum nemanda eitt verkefnablað, sjá verkefnið Hvernig breytist líkami minn? bls. 52. Fyrirmæli til nemenda: Í fyrsta rammann teiknar þú þig sem ungabarn, í miðjuna teiknar þú mynd af þér eins og þú lítur út í dag og í síðasta rammann teiknar þú þig eins og þú ímyndar þér að þú lítir út í framtíðinni. Svaraðu svo umræðuspurningunum hér að neðan því við ætlum svo að spjalla um þær í næsta tíma! Bls. 44–45 Umræðupunktar Til kennara: Í þessari umræðu viljum við nýta verkefnið hér að framan, Hvernig breytist líkami minn? og draga fram að líkami okkar tekur sífelldum breytingum eftir því sem við eldumst. Fyrir utan það að líkaminn tekur sjáanlegum breytingum, þá breytast skoðanir okkar, eins og t.d. hvað okkur finnst gott eða vont (t.d. snerting eða matur) og hvað við getum gert sjálf eða þurfum hjálp við. Hvort sem við erum ungabörn eða orðin gömul, þá gætum við þurft hjálp við margt sem við þurfum ekki hjálp við þegar við erum að verða unglingar. Hafðu þetta í huga þegar þú tekur umræðuna með nemendum og ekki gleyma að segja einnig sögur af þér! • Hvað þurftum við hjálp við þegar við vorum ungabörn – og hvað gátum við gert sjálf? • Hvað þurfum við hjálp við í dag? o Mun það breytast þegar við verðum fullorðin? • Ef þið skoðið ykkur sem ungabörn og hvernig þið eruð í dag, finnst ykkur það sama gott? o S.s. sami matur? Sama snerting? • Hvað veldur líkama ykkar vanlíðan? Hefur það breyst frá því þið voruð lítil börn? • Hvernig líður ykkur einmitt núna? o Til kennara – skrifaðu niður á töflu þá líðan sem er nefnd. • Haldið þið að ykkur eigi eftir að líða eins þegar þið verðið orðin fullorðin? o Hvað gæti verið breytt? Hvað gæti orðið eins? Áhugaverðir tenglar Tvö myndbönd af Youtube af tveimur einstaklingum og hvernig þeir eldast frá 0 til 18 ára. Portrait of Vince, 0 to 18 years Portrait of Lotte, 0 to 18 years Ýmsan fróðleik má finna inni á heilsuveru undir kynheilbrigði: Bls. 46–49 Við erum öll nakin undir fötunum Við komum öll í þennan heim nakin, algengast er að ljósmóðir tilkynni hvaða kyni við tilheyrum, við erum vigtuð og mæld og fljótlega klædd í föt. Í sumum tilfellum í þeim lit sem er ætlaður okkar kyni út frá samfélagslegum normum. Sem lítil börn megum við ef til vill hlaupa um í almenningsgörðum á bleyjunni einni saman en eftir því sem við eldumst, því fleiri hömlur setur samfélagið gegn nekt og við
21 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 þurfum að klæða okkur. En hvernig klæðum við okkur, af hverju klæðum við okkur þannig og hvað segir okkur hvað telst „eðlilegur“ klæðaburður? Kveikja Hægt er að nýta myndasöguna á blaðsíðu 46 sem kveikju, lesa hana og spjalla út frá spurningunum sem Mía spyr Aló. Fyrir miðstig: Einnig er hægt að horfa á eftirfarandi myndband við lag RuPaul sem nefnist Born Naked og fjallar um að við fæðumst öll nakin en svo klæðum við okkur á ákveðinn hátt til að segja að hluta til hver við erum. Takið umræðu út frá myndbandinu um að nakinn líkami okkar skilgreinir okkur ekki og þegar við klæðum líkama okkar þá getur það sagt að hluta til um hvað við erum, t.d. hvaða efni okkur finnst þægileg, hvers kyns föt okkur finnst flott, hvort við erum frá Íslandi eða Indlandi og svo framvegis. Born Naked eftir RuPaul. Bls. 46–49 Umræðupunktar Til kennara: Föt geta sagt til um hvaða menningu við tilheyrum, við notum einnig fatnað til að tákna hvað við stöndum fyrir, hvernig okkur líður, til að sýna stöðu okkar (t.d. eru jakkaföt talin sýna yfirvald í sumum störfum), við hvað við vinnum (t.d. læknir í læknasloppi, iðnaðarmaður með gulan hjálm í gulu vesti o.s.frv.) og ýmislegt fleira. Þegar við ræðum við nemendur um af hverju við klæðumst fötum, þá viljum við ná fram almennri umræðu ásamt því hversu mikilvægt það er að líða vel í fötunum sínum. Sumum finnst kynjaður fatnaður óþægilegur því sá fatnaður passar ekki við kynvitundina, sumir þola ekki áferðina á ákveðnu efni, miðarnir trufla aðra, of þröng/víð föt eða of lítil/stór föt geta valdið óþægindum. Heyrið í nemendum hver þeirra upplifun er. • Af hverju klæðumst við fötum? o Segja fötin eitthvað til um hver við erum eða hvaðan við erum? o Hvernig veljum við fötin sem við viljum vera í? o Stundum klæðumst við fötum sem okkur finnst passa við okkur, hefur einhver upplifað að fötin passi ekki við sig? • Hvenær er nekt í lagi? En hvenær er hún kannski ekki í lagi? • Finnst ykkur öll föt þægileg? o Hvenær eru föt ekki þægileg? Bls. 47–49 Verkefni – Klæðaburður í mismunandi menningarheimum Einstaklings- eða hópverkefni. Nemendur draga land, í verkefninu Klæðaburður í mismunandi menningarheimum bls. 51, og kynna sér hvernig klæðaburðurinn er í því landi. Í kjölfarið útbúa þau kynningu fyrir samnemendur sína. Mögulegar útfærslur væru: • Glærukynning • Veggspjald o Teiknað o Skrifað
22 Kyn, kynlíf og allt hitt | Kennsluleiðbeiningar © Menntamálastofnun 2023 | 40711 o Úrklippur • Bæklingur • Myndband • Leikrit • Fatasýning Til kennara: Hægt er að samþætta þetta verkefni við samfélagsgreinar þar sem verið er að fræðast um lönd og menningarheima, einnig er tilvalið að vinna verkefnið í tengslum við textíl- og myndmennt. Áhugaverðir tenglar Hér má sjá myndband sem hentað getur fyrir miðstig. Myndbandið er á ensku en kennari getur líka valið að taka hljóðið af og útskýra sjálfur það sem þar fer fram eða leyfa nemendum að túlka það sjálf. Í myndbandinu er farið yfir að þegar við erum lítil velja forsjáraðilar föt á okkar og þegar við eldumst förum við sjálf að velja fötin, t.d. til að segja ákveðna sögu. Hér er myndband sem sýnir menningarbundinn klæðnað í mismunandi löndum heimsins. Bls. 50–55 Næði og einkamál Kaflinn fjallar um hvað felst í næði og einkamálum. Við höfum öll þörf fyrir næði stundum, geta lokað okkur af frá áreitinu sem er í kringum okkur og hafa tíma til að vera ein. Við ráðum einnig hverju við deilum með öðrum, hvort sem það eru leikföng, matur eða líkami okkar. Líkami okkar er okkar einkasvæði og hvort við viljum knús, haldast í hendur eða deila einhverju um líkama okkar, þá ráðum við því, það má vera okkar einkamál. Út frá þessu skoðum við einnig hverjum við treystum og hvernig við treystum mismunandi einstaklingum mismikið. Kveikja Skoðið og lesið saman blaðsíðu 50 í bókinni og fáið upp umræðu um hvernig nemendum myndi líða ef þau væru Kári og hvert myndu þau fara til að fá næði. Bls. 51 Verkefni – Trausthringurinn minn Á bls. 51 er komið inn á að við ráðum hvort við deilum með öðrum okkar einkamálum en ef við viljum gera það þá er gott að deila því með einhverjum sem við treystum. Öll þurfum við einhvern sem við treystum en við treystum fólki mismikið. Afhendið nemendum verkefnið Trausthringurinn minn, bls. 53, þar sem að í innsta hring skrifa þau einstaklinga sem þau treysta hvað mest (getur t.d. verið besti vinur, foreldri og/eða kennari), í næsta hring væru einstaklingar sem þau treysta að einhverju leyti og utan við hringinn væru einstaklingar sem nemendur myndu ekki treysta fyrir sínum einkamálum (t.d. strætóbílstjórinn eða yfirmaður mömmu/pabba). Tilvalið er að athuga hvort nemendur séu til í að deila sínum trausthring með öðrum og sjá hversu mismunandi trausthringir okkar geta verið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=