75 Atviksorð 18. Hvað getur þú fundið mörg orð sem hægt er að nota í staðinn fyrir mjög? Dæmi: Þetta er mjög skemmtilegt! Þetta er … skemmtilegt! Berðu þig saman við bekkjarfélaga. Fjölgar ekki orðunum þegar þið leggið fleiri saman í púkk? Orðin sem þú fannst í staðinn fyrir mjög eru svokölluð atviksorð. Atviksorð eru lýsandi orð eins og lýsingarorð en munurinn er sá að lýsingarorð lýsa nafnorðum og öðrum fallorðum, en atviksorð lýsa sagnorðum og lýsingarorðum. Atviksorð lýsa hvar, hvenær, hvernig og hve oft eitthvað er gert eða gerist og eins eru þau notuð til áherslu. Hvar ertu núna? Ég er hérna, þarna, inni, úti, heima, erlendis, uppi, niðri … Hvenær kemur þú? Ég kem núna, bráðum, seinna … Hvernig lestu? Ég les vel, illa, sæmilega, hægt, svona … Hve oft ferðu í bíó? Ég fer sjaldan, stundum, oft, aldrei … Hvernig er myndin? Hún er mjög, afar, sjúklega, ýkt, geðveikislega, ógeðslega … góð. Stundum er erfitt að greina á milli lýsingarorða og atviksorða, enda eru þetta orðflokkar sem báðir eru lýsandi. Sama orðið getur tilheyrt báðum orðflokkum, allt eftir því hverju er verið að lýsa! Prófum að greina á milli og skilja örlítið betur: • Barnið syngur hátt. Hér er verið að lýsa því hvernig barnið syngur (sagnorðið að syngja). • Húsið er hátt. Hér er verið að segja að húsið sé hátt (hús er nafnorð eins og þú veist). Eitt og sama orðið – hátt – getur annars vegar verið atviksorð og hins vegar lýsingarorð. Hérna skiptir öllu máli hverju er verið að lýsa og út frá því ræðst orðflokkurinn. Einföld leið til að greina hvort orð er atviksorð eða lýsingarorð er að breyta úr eintölu í fleirtölu (eða öfugt): • Barnið syngur hátt og börnin syngja hátt. • Húsið er hátt og húsin eru há. Ef orðið breytist þá er það lýsingarorð en ekki atviksorð. 19. Hvað getur þú fundið mörg orð sem lýsa því hvernig, hvar og hvenær þú hlustar á tónlist? Notaðu atviksorðin á síðunni til vinstri til að koma þér í gang. Berðu þig saman við bekkjarfélaga. Tókst ykkur jafnvel upp?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=