Kveikjur

63 „Er ég fölur, Simbi?“ spurði ég. „Hefurðu verið að borða eitthvað?“ spurði Simbi. „Já, fullt,“ svaraði ég. „Heldurðu að það hafi verið eitrað?“ spurði Simbi. „Nei, það held ég ekki,“ sagði ég, „en ég held að það geti verið eitthvað að mér sem ég veit ekki um. Simbi, hvað myndirðu gera ef ég brotnaði hér fyrir ofan hálsana?“ „Brotnaðir hvernig?“ spurði hann. Alveg eins og hann hefði verið á námskeiði í spelkum. „Svona brotnaði allur, öll beinin í mola?“ Simbi hugsaði sig dálítið um. Hann er með stór kringlótt augu, þau allrakringlóttustu sem eru til, og þess vegna getur Simbi orðið meira hissa en allir aðrir. Nú voru augun í honum eins og súperboltar og svo sagði hann: „Þá yrðirðu bara að kássu. Ég myndi setja þig í poka og fara með þig heim.“ Eitt augnablik sá ég pabba og mömmu í dyrunum og Simba standa á stigapallinum með plastpoka úr Hagkaupi. Simbi yrði soldið vandræðalegur og svo myndi hann segja: „Ég er að skila Elíasi,“ og rétta þeim pokann. Taktu eftir því hversu myndrænn sögumaðurinn er í lýsingum sínum og hvernig hann virðist lauma spaugilegri hlið málsins að í gegnum hugsanir Elíasar. Þá jafnaði ég mig. Það hlaut að vera alger ógjörningur fyrir barn að brotna svo mikið við að detta af hjóli í mold og mjúkan mosa að það væri ekki hægt að raða barninu saman aftur. Svo við Simbi fórum upp fyrir blokkirnar og ég vann átján ferðir og Simbi eina og ég steingleymdi að fara varlega. Þegar við fórum heim að borða fannst mér ég vera heilsuhraustur drengur í blóma lífsins. En. Um leið og ég opnaði dyrnar heima kom mamma æðandi og hrópaði: „Mikið er ég fegin að sjá þig,“ alveg eins og hún hefði aldrei búist við að hitta mig aftur. Og pabbi kom fram og spurði: „Er allt í lagi með þig?“ Taktu eftir því hvað gerist þegar skipt er á milli sögusviða. Fyrst var sagan í eldhúsinu heima hjá Elíasi. Svo fóru Elías og Simbi út að hjóla, áður en snúið var aftur í eldhúsið. Í textanum er nánast hlaupið yfir sjálfa hjólaferðina með stuttri málsgrein. Samt er myndin af þeim Elíasi og Simba að hjóla ljóslifandi í höfðinu á þér. Tekurðu eftir því? Sérðu þá ekki fyrir þér? Þetta eru töfrarnir í lestrinum – við sem lesendur fyllum inn í eyðurnar, alveg sjálfkrafa, jafnvel aðeins út frá örfáum orðum. Með þessu undarlega fyrirbæri sem nefnist ímyndunarafl. „Já,“ sagði ég. „Það er allt í lagi með mig. Sjón: Góð. Heyrn: Eftir atvikum. Lyst: Góð. Allt gott að frétta af Elíasi.“ Sögusvið er sá staður þar sem sagan gerist hverju sinni – ekki ólíkt leiksviði í leikriti.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=